Thursday, November 29, 2007

Laaaaaang fallegastur!

Þá til daglegs amsturs....

Helgin framundan, nóg um að vera.
Jólahlaðborð með Bæjarskrifstofunni á morgun föstudag í Svartaskógi. Vonandi reddast pössun fyrir einkadótturina svo við Óðinn komumst bæði. Svo erum við að spila á laugardagskvöldið á Hótel Héraði.
Eygló frænka ætlar að kíkja í sveitina yfir helgina, það þurfti sætan strák til svo að hún kæmi út á land að heimsækja uppáhalds frændfólkið hér! Takk Konni!
Er annars enn að melta atburði gærdagsins, trúi varla að frændi litli sér kominn fyrr en ég sé mynd.
Dögun er kát með að vera orðin stóra frænka en skildi samt ekki alveg allt þetta tal um að bumban hennar Hörpu væri farin og í staðin væri kominn lítill frændi. But I don't blame her, þetta er örugglega frekar súrt fyrir 2 ára barn að skilja. En Dögun er orðin svo stór að hún er farin að baka til jólanna nú þegar. Það voru nefnilega bakaðar piparkökur á Kjarri á þriðjudaginn við mikla gleði. Svo stendur til að skreyta þær 3. des.

Wednesday, November 28, 2007

Gormur has arrived


Strákur fæddur í Köben, 28. nóvember um 21:00-22:00 að íslenskum tíma að haldið er. Gekk vel, allir hressir, en þreyttir.........13 merkur og 51cm.

Til hamingju kæru foreldrar með hann Gorm litla frænda minn!!!!! Myndir óskast sem fyrst ;o)

.....hér ríkir spennufall......

Vei, vei, vei.......

Tölvan á leiðinni með flugi austur núna og barnið væntanlegt í Danaveldi á næstu klukkustundum...... hversu spennandi dagur er þetta í dag???
Ekki það að ég sé að líkja saman tölvu og barni...... en þið vitið hvað ég meina.

Afmæli

Annars er það líka að frétta að hann Afi minn á afmæli akkúrat í dag þann 28. nóv. og því spennandi að vita hvort hann fái Gorm í afmælisgjöf.
Til hamingju með daginn Bragi afi!

Gormur

Æ, það er að verða vika frá síðasta bloggi, ég er engan vegin að standa mig í þessu.
O-jæja, jólahlaðborðs-spil gekk bara vel um helgina, rjúpnaveiðar hjá Óðni gengu ekki eins vel, sunnudags-lummubakstur á Mánatröð 6 gekk vonum framar og allir voru kátir.

En það sem helst brennur á manni þessa dagana er yfirvofandi koma hans Gorms frænda míns, sem er væntanlegur á svæðið, hugsanlega í skrifuðum orðum og vonandi ekki seinna en á morgun. Það er mjög undarleg tilfinning að verða móðir, en ég verð eiginlega að viðurkenna að það er enn skrýtnari tilfinning að verða föðursystir! Maður verður einhvern vegin svo fullorðins.

Samt einhver þrjóska í Gormi að mæta á svæðið, hann var skráður í heiminn þann 24. nóv. en hefur ekki enn skriðið út þrátt fyrir mikil læti á síðari hluta meðgöngunnar, kannski skottið sé að þvælast fyrir honum??? (ef þið smellið á litlu Gorma-myndina sjáið þið fyrirferðina á honum)
Alla vega geri ég ekki annað en að senda strauma út til Danmerkur í þeirri von að krílið fari að láta sjá sig svo Harpa greyið geti farið að anda eðlilega og þau hjónaleysin komi heim um jólin.

Þó er annað sem gleður mitt litla hjarta núna, en það er væntanlegur nýr fjölskyldumeðlimur sem er jólagjöf, konudagsgjöf, páskagjöf, sumargjöf og afmælisgjöf næstu tveggja ára til mín frá sjálfri mér:
Ég veit ekki hvort ég á að efna til frekari nafnakeppni þar sem ég er enn óákveðin með nafnið á síðasta fjölskyldumeðlim, en ef ykkur dettur eitthvað fallegt og viðeigandi í hug þá látið það flakka. En "Gormur II" væri vissulega viðeigandi ef þeir félagar mæta á sama degi. Eða "Frú. Matthildur Gorm" , "Jóhannes" "Sigfinnnur", ........?


Thursday, November 22, 2007

Jólakortahausverkur.

Nú fer að koma sá tími að hanna þurfi jólakort ársins 2007. Ég er með margar hugmyndir í hausnum, en engin kemst á pappír hjá mér vegna anna og þreytu/leti. Eins þarf að fara að smella af jólamynd af skvísunni sem mun fylgja kortinu að vanda. Það er svona þegar maður byrjar á þessari vitleysu að búa til jólakort (sem er vissulega gaman) en þá setur maður sjálkrafa ákveðna pressu á sjálfan sig að toppa kort ársins á undan.
En ein hugmynd er að spara myndatökuna og nota mynd af Shirley Temple, þær Dögun eru ekki svo ósvipaðar á köflum með sínar krullur, en sennilega myndu fæstir "kaupa" það:




Best að fá sér gott kaffi og kökur á meðan ég hugsa þetta á blað með hugarorkunni......



Tuesday, November 20, 2007

Yndislegt veður....



.....og svo situr maður inni að vinna í tölvunni..........


Ég hefði verið svo til í að fara á rjúpnaveiðar í dag, en þá ekki til að veiða rjúpu, heldur til að fá mér göngutúr. Það virðist nefnilega þannig komið að það er ekkert mál að fá frí í vinnunni til að labba á fjöll og skjóta rjúpur því veðrið er svo gott, en það yrði sennilega horft undarlega á mig ef ég segði: "Mætti ég fá frí í dag, það er svo gott veður og mig langar í heislubótargöngu upp í fjall".

Þessi síðasta er tekin 10 mín. á eftir hinum. Fljótt að dimma þegar sólin sest. En mikið er þetta fallegt!

Monday, November 19, 2007

Pestagemlingur

Ælupest og hiti einkenndu helgina hjá mér. Ég fór lasin heim í hádeginu á föstudaginn eftir mikið sálarstríð hvort ég ætti að endast út daginn í vinnunni. Sem betur fór tók ég rétta ákvörðun og komst heim rétt áður en illa fór. Laugardagurinn fór svo í almennan slappleika eftir leiðinlega nótt en Dögun var agalega góð við mömmu sína og kyssti mig hvað eftir annað á ennið og knúsaði mig. Hún var líka hið prúðasta barn allan daginn aldrei þessu vant. Sunnudagurinn var skárri. Þá röltum við Dögun með sleðann á Mánatröð 6 og fengum lummur og Cointreau í veika maga. Svo var súkkulaðikaka og ís hjá Árna og Erlu í gærkvöldi, en magapestasjúkklingum er ekki gert að borða mikið af slíku og mér þótti illa gert af þeim að velja akkúrat þetta kvöld til að bjóða upp á þetta lostæti.
Það er kominn mánudagur og ógleðinn enn við völd, en þó druzzlast ég í vinnunni eftir bestu getu til að sýna lit. Þessi pestafaraldur ætlar aldrei að ganga yfir.
Lítið meira að frétta svo sem, annað en að ég er farin að hlakka til að sjá verðandi frænda minn sem er væntanlegur í Danaveldi á næstu dögum, hann verður fríðleiks barn eins og hann á ættir til.

Friday, November 16, 2007

Neljä Joulupukkia

Þetta er allt að koma hjá ykkur sem giskuðu á nafnið, ég gruna samt Gvend um að hafa googlað þetta.
"Jólasveinarnir fjórir" ku vera nafnið á hljómsveitinni eða "Fjórir jólasveinar" það hljómar svo skemmtilega á finnsku, þó það séu bara tveir Finnar innanborðs. En ég gæti svo sem alveg hugsað mér að læra finnsku, slatti af góðum listaskólum í Finnlandi og Finnarnir sem ég hef kynnst um æfina skemmtilegt fólk!
En þessi bók hér til hliðar er ein af mínum uppáhalds, það var alltaf svo hátíðlegt seinni partinn í desember þegar pabbi dró hana fram og las fyrir mig með sínum rólegheita blæ. Mig grunar að hann hafi ekki haft síður gaman af henni, enda frábær bók. Þetta er líklega mín fyrstu og einu kynni af finnskum bókmenntum hingað til, kannski maður ætti að fara að bæta úr því og lesa meira eftir þessa þjóð sem er ekki svo ólík okkur Íslendingum.
Annars er það að frétta að rauðvínið fína náði ekki landi í tæka tíð, sat fast í einhverri höfn í Rotterdam, svo það var ekkert Beaujolais drukkið í gær á Íslandi, nema þá í franska sendiráðinu sem splæsti í dýra flugvél undir farminn svo þeir gætu nú örugglega skálað í réttu víni. Á Hótel Héraði var hins vegar drukkinn 2006 árgangurinn af ítalska víninu "A mano" í fyrsta sinn á Íslandi. Fínt vín, bragðmikið en svolítið ungt eins og gefur að skilja. En góð redding hjá hótelinu, hún Auður klikkar ekki á hlutunum. En það voru allt of fáir sem mættu, sem þýddi reyndar bara meira rauðvín á mann og fullt af mat/snittum.
Í Japan , hins vegar, böðuðu menn sig hreinlega í víninu, ekki svo slæm hugmynd. Ég myndi þó ekki vilja mæta í vinnuna í heila viku á eftir, eins og ég verð berjablá á vörunum af því einu að drekka rauðvín.

Thursday, November 15, 2007

Góður fimmtudagur.....

Í kvöld verður Hótel Hérað með hina árlegu Beaujolais rauðvínssmökkun, ég er ekki vel að mér í sögu þessara frönsku vína en hér ættuð þið að getað lesið ykkur til um það. En það verður vissulega gaman að smakka árgerð 2007 þar sem ég hef ekki misst úr smökkun síðan 2004. Árgerð 2005 fékk mjög góða dóma, en ég var ekki eins hrifin af víninu í fyrra.


Hin dularfulla hljómsveit "Nelja Joulupukkia" mun spila nokkur lög á meðan menn innbyrða veigarnar. En hver sá sem getur sagt mér hvað nafnið þýðir fær stórt hrós!

Monday, November 12, 2007

Helgin

Helgin var frekar róleg, hún byrjaði þó með tiltekt, hittingum og ælupest á föstudaginn. Jamm, Dögun ældi aðfaranótt föstudags (og það á nýju Sollu stirðu náttfötin sín, þvílík sorg) en virtist svo hress á föstudaginn að við héldum að hún hefði bara kúgast svona í einu af hóstakastinu sem hún fékk um nóttina. Það var því ekkert tekið mark á veikindum daginn eftir.

Stína og Grétar buðu í beyglu á TeogKaffi í hádeginu, Sigríður Eir hringdi svo, þessi elska, og kíkti með okkur Dögun á kaffihús aftur um miðjan dag (eftir ógurlega tiltekt á Lagarásnum).
Um klukkan 17:00 fórum við Dögun svo með langömmu í búð og byrjuðum í apótekinu. Dögun hljóp strax í dótahornið að skoða, en stuttu síðar kemur hún til mín (ég á kafi í snyrtivörunum) og er skrítin á svipin og segir: mamm......... **guuuubbbb** og allt gólfið í snyrtideildinni á floti! Skemmtileg saga það. Svo hún var drifin heim til pabba á meðan við Unna amma kláruðum að versla.
Ines kom svo í heimsókn í 2 tíma á meðan Matti og Kati spiluðu á sundlaugarbakkanum í tilefni myrkra daga. Svo komu þau í mat og tilheyrandi veigar og við spjölluðum á meðan stelpurnar léku sér.
Dagrún var hjá okkur um helgina og Dögun var alsæl að hitta "Systu" sína loksins. Sú fékk sko að kenna á bókunum hennar Dögunar og var látin lesa margar bækur og skrifa allt stafrófið á blað handa prinsessunni. Ég er búin að fela Dagrúnu það verkefni um jólin að kenna Dögun að lesa (ekki svo langt í land með það, sú litla er ótrúlega glögg á stafina)

Við kíktum í Sveitina á litlu frænku og foreldra, það var ljúft og Stína skellti barasta í brauð og svo var hámað í sig nýbakað brauð og kaffi.

Á sunnudaginn fórum við svo í dýrindis skógargöngu í 8 stiga frosti..... kalt var það, en hressandi og enginn sjáanlegur í skóginum. Dögun prufaði leiktækin og þau feðginin skelltu sér í "rennibrautar-róluna" því miður náðist ekki mynd af því þar sem mamma var á taugunum yfir að þau myndu slasa sig.

Amma gulrót kom svo færandi hendi frá Köben með grænar gúmmí-túttur og náttkjól á skvísuna í gærkvöldi. Í Köben hitti hún Gorm, verðandi litla frænda (spái ég), í eigin persónu, ef svo má segja. En hann er væntanlegur í heiminn í lok mánaðarins. Við sýndum Dögun myndir af bumbunni hennar Hörpu, hún var alls ekki ánægð með að fá ekki að vita hvað litla barnið heitir, en henni fannst bumban mjög áhugaverð.

Eins hittum við amma gulrót verðandi tvíburapabba og flugmann á flugvellinum, en hann var svo vænn að skila gömlu konunni (frænku sinni) heim frá Reykjavík. Krílin hans og Jóhanna dafna víst vel. Ísold frænka blómstrar líka og hún Birta litla er áætluð um 30. des. Nú er spurning hvaða kríli verða fyrst á svæðið. Ég spái samt Gormi okkar forystu þar sem hann er nú elstur og við viljum endilega fá hann til okkar um jólin.

Annars liggur mánudags-myglan í loftinu í dag og við hefðum alveg verið til í að sofa lengur í morgun. Einhver værð sem færist yfir mann í skammdeginu.

Thursday, November 8, 2007

Dagar myrkus.

Æ ég er e-ð andlaus. Lífið er í svo mikilli rútínu þessa dagana að það er lítið nýtt að gerast. Nema hvað ég veit núna að ég hugsa meira með hægra heilahvelinu eins og tilraunin á síðunni hennar Hörpu mágkonu gefur til kynna. Alltaf gott að vita svona hluti.

Það er kannski von á góðum gestum til Egilsstaða um helgina því þessi litla mús hefur hug á að koma austur með foreldrana.

Ég efa ekki að þessi stóra mús verði mjög glöð að fá "Bleggeddu" sína í heimsókn. Enda ekki lítið dálæti sem Dögun hefur á litlu frænku sinni, hún upplifir sig nefnilega svo stóra í samanburði við hana og fær að ráða öllu.




Í morgun fórum við Óðinn með Dögun á leikskólann í fyrra fallinu. Það eru nefnilega "Dagar myrkus" í gangi hér á Austurlandi og það var komið að því að setja krukkurnar, sem krakkarnir hafa verið að mála síðustu daga, út í myrkrið með litlu kerti í. Þetta var afar hátíðlegt og Dögun fannst mikið til koma. Svo eftir því sem á leið komu fleiri krakkar með krukkur út og þegar við fórum var komið dágott safn af fallega máluðum krukkum á stéttina fyrir framan leikskólann.
Svo er frí í leikskólanum á morgun og við Dögun ætlum að vera heima og taka til..... og "hugga sig" svo með popp og djús uppi í sófa yfir Línu langsokk eða einhverju álíka menningarlegu. Helgin byrjar sem sagt snemma hjá okkur mæðgum.

Ég ákvað að setja inn nokkrar myndir af leikskólanum hjá Dögun, það er svo notalegt að fá að sjá hvað börnin manns eru að starfa þess 8 tíma á dag sem maður er fjarverandi. Einhvern vegin fær maður minna samviskubit yfir því að vera ekki á staðnum, því krílin virðast vera alsæl í leikskólanum og upplifa og læra svo margt sem þau annars myndu fara á mis við. (ef þið smellið á myndirnar er hægt að sjá þær í fullri stærð)

Öfugsnúinn dagur, Dögun fannst mamman mjög vitlaus að ætla að setja hana í einn bláan sokk og einn gulan, en sættist þó að lokum við þá skýringu að Lína nokkur Langsokkur ætti eins sokka. Spurning hins vegar hvort Lína hefur átt Latabæjarbol?:

Göngutúr hjá Ávaxtahóp.

Dagar myrkus, Svenni og Ines setja sínar krukkur út.

Tuesday, November 6, 2007

Ég er ekki lengur ein......

Ég komst að því í gær að ég á nöfnu!

Það ku vera lítil falleg snót sem er um 18 mánaða gömul og ber nafnið: Steinrún Dalía Gísladóttir. Ég komst að þessu fyrir tilviljun þegar ég var að stússast í þjóðskrá vegna vinnunnar.

Langamma hennar hét víst Björg Steinrún Björnsdóttir og var fædd 1919 og dó árið 1988. Hún var sem sagt enn á lífi þegar ég var skírð, ég sem hélt alltaf að ég væri sú fyrsta og eina sem héti Steinrún.

Það er mjög gleðilegt að eignast nöfnu, en viss vonbrigði líka. Það var nú svolítið flott að vera alltaf eina "Steinrúnin" á landinu og oft þægilegt. T.d. þegar ég þarf e-mail þá þarf ekkert jon3451@hotmail.com eða svoleiðis, alltaf bara steinrun@....... hvað sem er, engin sem slóst um nafnið við mig. En þegar ég fékk að sjá myndir af skvísunni gat ég ekki annað en verið stolt af nöfnu minni, enda fallegasta stelpa hún Steinrún Dalía, með mikið dökkt hár og stór augu......sem sagt alveg eins og ég........hmmmm.....ekki?

But we "Steinrún-people" are clearly groing......

Sunday, November 4, 2007

....hún á afmæli í dag.....

Hún amma mín á afmæli í dag. Hún er sennilega 50 ára í 36. skiptið.
Hún fær marga kossa og kveðjur frá okkur hér:
Til hamingju með daginn Unna amma!!!

Við Dögun fórum og keyptum gjöf handa ömmu og tókum okkur góðan tíma í að velja e-ð fallegt. Dögun var eiginlega alveg viss um hvað hún vildi gefa langömmu sinni áður en við lögðum af stað, en það var einhverskonar "Bangsímon pakki". Eftir skoðun í búðinni þá stóð nú samt tvennt upp úr sem henni fannst mest spennandi: Jólasveinn og skartgripaskrín með dansandi ballerínu. Við völdum það seinna og ég sagði við Dögun að þetta væri "spiladós" sem spilaði lag.
Þegar í veisluna var komið gaf Dögun langömmu sinni pakkann og fylgist spennt með henni opna hann. Um leið og langamman lyftir upp lokinu á spiladósinni heyrist frá þeirri litlu: "Þetta er hrekjudós amma!"


Það veinuðu auðvitað allir af hlátri og langömmu fannst þessi athugasemd örugglega ekki síðri en gjöfin sjálf. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær "frekjudós" í afmælisgjöf!


Friday, November 2, 2007

....hann á afmæli hann pabbi.........

Unglingurinn á heimilinu á afmæli í dag. Hann fær því super afmæliskveðjur frá afganginum á heimilinu.
Dögun færði svo pabba sínum pakka og súkkulaði í morgun á meðan mamman hitaði kaffi. Hún (Dögun) var afar samviskusöm við að taka utan af molanum fyrir pabba sinn, sjálfa sig og mig. En einhverra hluta vegna hvarf minn moli samt á meðan ég var enn í kaffiuppáhellingu........ Dögun kannaðist ekkert við málið.
Annars er það helst að frétta að það eru tónleikar á Eskifirði á morgun kl. 17:00, Requiem eftir Gabriel Faure, Pavane eftir M. Ravel og óbókonsert nr. 2 í d-moll eftir T. Albinoni. Þar á ég víst að þenja raddböndin í aríu sem var upphaflega skrifuð fyrir drengjasópran, Pie Jesu. Það verður spennandi að sjá útkomuna á því. En ég hvet alla til að mæta sem hafa áhuga á klassískri tónlist, uppfærslan á Akureyri tókst víst mjög vel og það verður gaman að sjá hvort hún verði ekki enn betri hér fyrir austan.
Þessi frétt sló mig pínu í gær þegar ég sá hana í sjónvarpinu. Hvernig í ósköpunum gat maðurinn sofið vel með allt þetta á bakinu? Hvernig geta Bandarísk stjórnvöld yfirleitt sofið vel?
En ég vil ekki deyfa helgar-stemninguna með svona pælingum svo ég ætla að setja inn eina gleðifrétt um vinkonu mína Britney sem hlýtur að vera agalega hamingjusöm mannerskja fyrst hún á svona mikið af fötum!
Góða og gæfuríka helgi.