Thursday, October 30, 2008

Lansa-lega

Eftir flugferð, lúxus gistingu hjá Ísold, sjúkrahúsinnlögn og spítalamat fjarri nánustu fjölskyldu kom hún Bóthildur mín loksins til mín til að deila með mér þessum tíma á Lansanum. Fyrir þá sem ekki vita er Bóhtildur Gráman mín ástæra Macintosh tölva og orðin stór partur af mér, því voru endurfundirnir dásamlegir þegar Grétar mágur tölti inn með dýrðina.

Ekki það að það sé búið að væsa um mig hér á Lansanum, hér er maður í stöðugu eftirliti og umhyggju góðs fólks, bæði starfsfólks og ættingja/fjölskyldu sem kíkja við og koma færandi hendi. Ísold kom með nammi og töskuna mína (og fær feitan plús í kladdan fyrir að bera hana alla leið til mín, þessir Breiðdælingar láta ekki að sér hæða þegar um krafta er spurt), tengdó komu svo með slúðurblöð og gos, Grétar kom með kókómjólk og kex sem Stína reddaði fyrir mig svo ég myndi ekki svelta aftur í nótt eins og þá síðustu og auðvitað tölvuna og aðra hluti sem Óðinn og pabbi voru búnir að redda út á flugvöll á Egilsstöðum........ Sem sagt, þó að maður liggi bjargarlaus og feitur inni á spítala snýst heimurinn enn um rassgatið á manni! LJÚFT!

En annars veit ég lítið enn um stöðuna, var rétt í þessu að fá mældan blóðþrýstinginn sem var hærri núna en áður...... eins gleðilegt og það nú er. Það á að skoða málið á morgun.

En eitt er alla vega ljóst að ég kem ekki austur aftur fyrr en eftir að vera búin að kúka krakkanum í heiminn. Svo dekurdvöl á Norðfirði er út úr myndinni en þó gleðilegt að vera í öruggum höndum og stuttu færi frá fæðingardeildinni þegar þar að kemur, engar ófærar heiðar og göng á leiðinni.
Svo hvílist maður ótrúlega vel hér, enda getur maður ekki stolist til að gera neitt eins og: elda mat, fara í Bónus, sækja Dögun á leikskólann, setja í þvottavél, baka, aðeins að ryksuga, þurrka af eða skúra............ Svo þetta er eins konar húsmæðraorlof þó að oft sé stutt í smá geðshræringu þegar ég hugsa heim til prinsessunar og eiginmannsins. En allt tekur enda um síðir og vonandi þurfum við ekki að bíða of lengi eftir Sillemú.

Ein Photo Booth mynd af okkur Dögun á góðri stundu fyrir skömmu.

Monday, October 27, 2008

Árs afmæli

24. okt. 2007 setti ég fyrstu færsluna inn á bloggið. Nú rétt rúmu ári seinna er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda þessu áfram. Ég held þó að ég myndi sakna þess ef að ég gæfi bloggið alveg upp á bátinn, betra er að blogga bara eftir hentugleika og nennu en að hætta alfarið að blogga.

Eða hvað segja menn?

Ég ætlaði samt að læsa blogginu um daginn en var ekki nógu klár til að finna út hvernig ég færi að því, en um leið og ég kemst að því er líklegt að ég muni setja inn lykilorð á síðuna, sérstaklega með það í huga að óðum styttist í nýjan fjölskyldumeðlim. Myndum og sögum um það umræðuefni mun sennilega fjölga á komandi mánuði og aðalega hugsað fyrir fjölskyldu og vini.

Wednesday, October 22, 2008

Á nagladekkjum til Norðfjarðar.


Skoðuðum fæðingardeildina á Norðfirði í gær og leist bara ágætlega á - voða heimilislegt. Svo er bara að sjá hvort við náum niður eftir þegar á reynir. Hvað vorum við að hugsa með að eiga barn í nóvember á austurlandi???
En í þessari ágætu ferð fórum við í mat til Dagrúnar og fengum þvílíkar kræsingar, ég er enn að blóta því að hún búi í klukkustundar fjarlægð frá okkur því annars væri ég mætt í heimsókn að borða afganginn af súkkulaðikökunni síðan í gær.
Dögun fékk að vera eftir hjá Systu á meðan foreldrarnir skruppu á deildina, og var afar ánægð með það. Enda fékk hún að fara í stóra baðið og synda eins og hafmeyja. Þær tvær eru strax búnar að plana dekur daga þegar Sillemú mætir á svæðið.

Tuesday, October 14, 2008

Leti.


Ég nenni engu þessa dagana..ENGU! Ekki einu sinni að sitja á rassinum og koma með gáfulegt blogg, ég skrifa það á Sillemú.

Wednesday, October 8, 2008

Bleyjutal.....


Á þessum síðustu og verstu tímum komu taubleyjurnar loksins í hús. Ég ákvað að reikna hvað þær hefðu hækkað miðað við gengið frá því að ég pantaði þær er USD var í 87 kr. Mér reiknaðist að þær hefðu kostað mig 12.000 kr meira í dag en fyrir rúmum mánuði síðan. Eins gott að ég var óþolinmóð og ákvað að panta strax, sérstaklega með það í huga að pappableyjur munu örugglega hækka töluvert eins og annar innfluttur varningur á næstu dögum.

En svo lengi sem að rafmagnsreikningurinn hækkar ekki mikið þá ættum við að koma út í feitum plús með þessum framkvæmdum, þó svo að þvottaefnið muni hækka smá.

Nú er ég að herða mig upp í að setja allt í þvott áður enég freistast til að skila öllu saman með miðunum á.

Við Dögun viljum senda okkar ástkæra Úlfi baráttukveðjur í tilefni af því að hann er með ælupest í Köben, væri samt freistandi að fá hann lánaðan á Klakann til að æla yfir allt þetta krepputal og ruglástand.
Verð líka að benda á skemtilegt myndband sem Harpa mágkona bendir á á sinni síðu. Ætli við missum ekki allt ef húmorinn tapast.

Sú heppna.

Kreppan truflar marga núna en þó ekki hana Dögun sem græddi á tá og fingri í gær. Dagur kom heim úr interrail og færði litlu systur pakka.

Dögun, sem er búin að klæðast Línu langsokk búning hér heima við 2 síðustu daga, var afar sátt með að fá bróður sinn heim, enda búin að bíða lengi eftir að komu hans því hún var alveg viss um að hann væri í útlöndum að kaupa handa sér Manchester búning (en enginn veit hvaðan hún fékk þá hugmynd). En hún segist halda með þeim eins og Dagur og búin að tilkynna honum í símann að hana langaði í búning.
Dagur sveik sko ekki litlu systur með það og upp úr pokanum kom þessi flotti alvöru Manchesteer búningur, Signoritu kjóll og nammi! Eitthvað segir mér að hann verði í guðatölu næstu dagana, enda fékkst Dögun ekki úr fótboltabúningnum í gær og svaf því í honum í nótt.


Litla Signorita Dögun

Eitthvað annað segir mér líka að Stefán afi Liverpool aðdáandi og Stefán Númi Arsenal frík eigi eftir að segja e-ð við liðsvalinu hjá Dögun.
Við foreldrarnir höfum hins vegar engar áhyggjur af þessu og smjöttum bara á góða súkkulaðinu sem við fengum og lofum öðrum að sjá um að ala upp íþróttaáhugann hjá barninu.

Saturday, October 4, 2008

Norska prinsessan.


Fundum þennan kjól af Önnu Guðlaugu inni í skáp um daginn. Hann smellpassar á Dögun núna og er afar hentugur í kuldakastinu hér hjá okkur.

Friday, October 3, 2008

Nýjar myndir

Loksins komnar myndir á barnalandi - júní til september 2008. Sko mig!
Samt ákvað Barnaland að vera með vesen og loka öllu vefsvæðinu í dag, loksins þegar ég hafði tíma til að setja inn myndirnar. En þeir opnuðu aftur að lokum um 16:30 svo nú á allt að vera komið inn.
Bumbumyndir og svoleiðis mun svo vera væntanlegt og í tilefni af nýrri bumbu og verðandi barni hef ég skipt um lykilorð. Þá er bara að sms-a á mig eða senda mér tölvupóst til að fá uppgefið hvað það er.

Morgunkaffið

Það er fátt eins notalegt og að heyra expressokönnuna á eldavélarhellunni krauma, til merkis um það að fyrsti kaffibolli dagsins sé í nánd. Og ekki er lyktin sem fylgir verri...........

Wednesday, October 1, 2008

Svaðilför og Seyðis


Fórum í sónar á Seyðisfjörð í morgun í slyddu til að byrja með, svolítilli hálku og svo snjókomu á Fjarðarheiðinni. Veturinn er sem sagt kominn hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Eins gott að fara að setja naglana undir "kerruna" ef maður á að komast yfir fjallvegi í nánustu framtíð.

Nú er svo bara rigning og rok úti og mig langar mest að fara heim, skríða upp í rúm og leggjast í dvala í svona eins og 8 vikur. Vakna svo hress og endurnærð, helst með krílið í fanginu.