Wednesday, October 31, 2007

Nýtt viðhald?

Ég er ástfangin.

Í gær fengum við Dögun afhentan glænýjan Toyota Auris luxury (Óðinn var á fundi og missti af allri gleðinni). Hjá móðurinni var þetta tóm hamingja en dóttirin var ekki eins glöð með að "kallinn" ætlaði að taka gamla bílinn okkar. En eftir að hún fékk í hendurnar súkkulaði-kassann sem fylgdi nýja bílnum sagði hún ekki eitt aukatekið orð í viðbót..... enda munnurinn upptekinn við annað en að tala.
Ég er hins vegar enn að ákveða hvort hinn nýi fjölskyldumeðlimur mun taka stöðu barns nr. 2 eða viðhalds. Það er alla vega á hreinu að Óðinn verður að leggja sig verulaga fram til að fanga athygli mína næstu daga.

En svo má hins vegar spurja sig um hvort það hafi verið gáfulegt að skipta á 4x4 jeppling og framhjóladrifnum smábíl á fyrsta snjódegi vetrarins!


Nú vantar bara nafn á gæðinginn/gæðinguna og auglýsi ég hér með eftir hugmyndum!


Tuesday, October 30, 2007

"Svekkjélsi"

Það er svo sem ekki frá sögu færandi, en ég keypti mér svartar Diesel buxur um síðustu helgi.
Aldrei þessu vant voru þær bara á nokkurð viðráðanlegu verði, enda ekki beint úr gallaefni, en þó á tvöföldu því verði sem Diesel buxur kostuðu fyrir 5 árum. Hinar tvennar Dieselbuxurnar sem ég hef átt um ævina voru "made in Italy" sem mér fannst alltaf nokkuð gleðilegt því ég er alltaf hálfur Ítali í hjarta mínu og finnst líka rétt að kaupa fatnað sem er framleiddur í Evrópu. En þegar ég tók pissupásu í vinnunni í gær þá brá mér heldur en ekki í brún....... við mér blasti stór miði: "made in China"! Ekki það að ég haldi að á meðan framleiðslan var í Evrópu hafi Evrópubúar saumað flíkurnar, örugglega mest innflytjendur frá Afríku og víðar, en þó ólíklegra að börn hafi komið við sögu.


Það lá við að ég dytti ofan í klósettskálina af gremju. Diesel er sem sagt löngu farið að framleiða fatnaðinn sinn í Kína og menga þar með það litla af því hreina landi sem þar finnst. Fátækt fólk og börn látin sauma tískuflíkurnar upp á okkur hræsnarana. En verðið lækkar samt ekki þrátt fyrir minni framleiðslukostnað hjá fyritækinu. Ó nei.

Ef buxurnar mínar væru ekki svona vel saumaðar (greinilega saumaðar að nettum höndum með mikla færni) og þægilegar myndi ég henda þeim í ruslið!
Því auglýsi ég hér með eftir henni litlu Tai Yi sem vandaði sig svo við að sauma buxurnar mínar, ég hef hug á að bjóða henni og fjölskyldu hennar út að borða á Mc Donalds.

Monday, October 29, 2007

Át helgi.....

Kominn þessi líka fallegi mánudagur. Blankalogn og sól úti, þó sýnir mælirinn -3° brrrr......

Helgin var nokkuð róleg hjá okkur Lagarás-tríóinu.

Ég fór á Sentrum fyllerí á föstudaginn og keypti mér flýkur til að geta mætt sómasamleg í vinnuna. Skrítið hvað fötin mín hafa tekið upp á því að minnka núna síðasta árið.....
....ég þarf að fara að kanna hvort þvottavélin er e-ð að klikka .... Svo var eldað folaldafille með tilheyrandi meðlæti og veigum....**sluuurp**...

Á laugardaginn (eftir tiltekt og þrif) fórum við Dögun á þessa fínu afmælishátíð hjá Grunnskólanum á Egilsstöðum. Skólinn fagnaði 60 ára afmæli og var í tilefni af því slegið upp skemmtilegri sýningu á munum og myndum frá skólastarfi síðustu 60 ára. Vel heppnuð sýning!
Óðinn eldaði svo dýrindis saltfisk og vafði svo folaldafille-sneiðum utan um döðlur og ólífur.....**meira sluuurp**...

Sunnudagurinn fór í þrif hjá okkur mæðgum, eða rétta sagt mér. Bíllinn var tekinn í gegn (í bílastæðinu á Mánatröð 6) þar sem að á að skila honum inn á næstu dögum og leysa út nýja gullmolann. Verst að ég þreif hann svo vel að ég tými ekki að láta hann frá mér núna. Dögun dandalaðist í garðinum hjá ömmu og afa á meðan. Svo í miðjum klíðum var kallað inn í lummur og kakó. Eftir það var Dögun inni og lét afa sinn lesa fyrir sig og leika í dúkkuleik með sér.
Stefán Númi bauð svo í eðal súkkulaðiköku og kaffi seinni partinn sem hann gerði sjálfur og okkur Lagarásbúum finnst að hann eigi að gera það að venju á hverjum sunnudegi.....
Að lokum var borðað ómótstæðilegt saltfisk-lasagnia ala Óðinn. Mæli með því þó það hljólmi skringilega..... **þriðja sluuuurp-ið**......

Og enn á ég bágt með að skilja hvað fötin mín skreppa saman........

Friday, October 26, 2007

Klárlega föstudagur í dag!





Ég er búin að verja morgninum í að skrá inn fasteignir í fasteignamat ríkisins. Ekki mjög gefandi en vissulega áríðandi verkefni fyrir sveitafélagið. Það góða er að á meðan hlusta ég á góða tónlsit og læt mig dreyma:

*Um Mac Book Pro með nýja stýrikerfinu (sem kemur út í dag um allan heim)

*Um að það er föstudagur í dag

*Um hvað Óðinn ætlar að elda gott handa mér í kvöld.

*Um að splæsa á mig fallegri flík á morgun

*Um að fara í litun og plokkun bráðum og klippingu og skol (sem hefur ekki verið gert síðan í janúar)

*Um að eiga eitt af þessum stóru einbýlishúsum sem ég er að skrá inn

*......

Svo gott að láta sig dreyma stundum.

Annars er það helst að frétta þessa dagana að Dögun telur sig vera strák og tekur það ekki í mál að hún sér af hinu kyninu, hún verður bara reið og gargar. Það er helst að það megi kalla hana stelpustrák. En hins vegar er hún líka ákveðin í því að pabbi hennar sé stelpa. Svo er hún alls ekki lítil heldur stór, og aumingja sá sem minnist á annað við hana! En Dögun verður örugglega fínn pabbi, sama hvað hún er að gera, alltaf er dúkkan með. (mynd stolið af leikskólanum)


Um daginn var ég að fara að undirbúa kvöldmat og spurði Dögun hvað ég ætti að hafa í matinn. Hún horfði á mig eins og ég væri e-ð skrýtin....."Pabbi elda matinn, ekki þú mamma!" Þá höfum við það. Eftir það hef ég eldað alla vikuna til að sýna barninu að mamma kann líka að elda, Óðni til mikillar ánægju.

Það var bangsadagur á leikskólanum í dag, sem b.t.w. var aldrei auglýstur, og auðvitað komum við Dögun ekki með bangsa. Þegar það uppgötvaðist gellur í þeirri litlu: "Mamma klaufi!!". Ég var vinsamlegast send heim aftur að ná í e-ð tuskudýr. Blessunarlega vorum við í fyrra fallinu í dag og ég náði í vinnu á réttum tíma þrátt fyrir allt.

Læt í lokin fylgja með 2 myndir af leikskólanum hennar Dögunar, stolnar beint af heimasíðunni hjá þeim. Linkurinn er hér til hliðar undir Dögun leikskóli.

Góða helgi folks!




Thursday, October 25, 2007

"Hver ert þú í múmíndalnum?"

Ég tók þetta skemmtilega quiz http://quiz.start.no/?p=qplay&quizID=1136 í dag.
Ég var Mía litla..... veit ekki hvort ég varð mjög hissa, enda fannst mér hún alltaf skemmtilegasti karakterinn þegar ég var lítil. Mía getur allt, og gerir allt sem henni dettur í hug....hm.. oft án þess að hugsa!
Annars getið þið tekið prófið sjálf!
En svona fyrst við erum komin í Múmíndalinn þá verð ég að mæla með búðinni Trust&trust: http://www.trustogtrust.dk/
Þar er hægt að finna allskonar fígúrur úr Múmínálfunum m.a. svona fínt hús. Mikið væri gaman að ganga í barndóm og kaupa sér svona kostagrip, en hann er sannarlega ekki gefins frekar en annað í búðinni. En maður á nú barn og líða tekur að jólum..... Ef maður kann ekki við að kaupa það handa sjálfum sér þá "gefur" maður bara börnunum það og leikur sér að þegar enginn sér til ;o)

Wednesday, October 24, 2007

Draumur í dós.


Innan skamms mun þessi gripur verða ættleiddur inn í fjölskylduna. Við bíðum öll spennt eftir nýja meðliminum sem verður mun viðráðanlegri í viðhaldi og fæði en sá fyrri.
Það versta er samt að gamla gripnum þarf að skila tandurhreinum og bónuðum. Ég auglýsi því hér með eftir áhugasömum bílaþvottamönnum sem vilja taka að sér verkið kauplaust!

Á ég að byrja að blogga eða ekki....?

Hef ekki enn komist að niðurstöðu um það mál. En þar sem barnalands-síðan hennar Dögunar er ekki til þess fallin að skrifa mikinn af texta með, þá fannst mér tilvalið að prufa a.m.k. að búa mér til bloggsíðu. Það mun svo koma í ljós hvort ég get haldið úti tveimur vefsíðum.