Friday, September 12, 2008

Allt að koma og helgin framundan.

Dögun laslingur er öll að koma til. Hún var hitalaus í gær og nokkuð hress fyrir utan væl og tilætlunarsemi sem hún fann að hún komst upp með á meðan hún var lasin, en gerði sér svo vonir um að geta notað áfram eftir það...... en sei, sei nei! Nú verður sko sagt STOPP! Hér eftir verður skorið á alla lúxus þjónustu og undanþágur frá hinum venjulegu reglum heimilisins.
  • Enginn matur uppi í rúmi
  • Engin hlaup foreldrana fram og aftur heilu næturnar til að sinna óskum prinsessunnar
  • Engin tjaldútilega í stofunni
  • Enginn ís 3x á dag
  • Og síðan en ekki síst: STRAFF Á DÝRIN Í HÁLSASKÓGI sem eru búin að ganga 4x á dag í 5 daga í tölvunni minni! Fínt leikrit....en sannarlega ekki í þessu magni!
Á meðan Óðinn skrapp út í sveit í gærkvöldi að gera að fuglunum sem þeir bræður höfðu veitt, elduðum við Dögun okkur ódauðlega hamborgara. En okkur leiddist eftir það svo við ákváðum að gera aðra tilraun með ostakökuna góðu og hafa í henni bláber að þessu sinni. Hún varð ekki eins góð og hindberjakakan en þrælfín samt. Dögun fór svo í pössun í morgun til Ollu (þar sem leikskólinn er lokaður) iðandi í skinninu af spenningi og færði henni Bláberja-ostaköku með morgunkaffinu. Eitt það besta sem Dögun gerir, fyrir utan að hitta Systu sína, er að fara í dekurheimsóknir til Ollu, Kjartans og Kastrós. Enda ætlaði gærdagurinn aldrei að líða hjá þeirri stuttu þar sem hún vissi að morgundagurinn fæli í sér heimsókn í græna húsið.Hinn helminginn af kökunni stefnum við svo á að færa Eddu prjónakonu eftir hádegið þar sem verður lögð lokahönd á peysuna miklu. En það á eftir að prjóna stykkin saman og sauma svo hliðar og ermar. Þetta er sem sagt allt að koma.

Ines ætlar svo að kíkja í pössun fram yfir kvöldmat þar sem Kati ætlar að læra á afródans og að þessu sinni er ég betur fallin til að passa fyrir hana en að fara með henni að dansa með bumbuna út í loftið.....

Í kvöld er svo stelpu matarboð hjá Erlu perlunni minni, hlakka óneytanlega til að hitta bekkjarsysturnar sem gerist æ sjaldnar þessi síðustu ár. En er alltaf jafn gaman og alltaf líður manni eins og við hittumst á hverjum degi. Ómetanlegt að eiga góða vini!

Góða helgi!

3 comments:

Anonymous said...

Veistu, Dýrin er Hálsaskógi eru ágæt. Ég kann þau utanbókar síðan Svenni var lítill og svo Ísold. Ekki Einar og hann varð sár þegar einhverntíma datt upp úr mér að "afi hans væri rugludallur". Og nú hef ég rifjað þetta verk upp með Bjarti síðustu árin.Ljúft og gott. Vona að skruggan jafni sig alveg.

Amma súkkó

Anonymous said...

Ekki vera svona ósveigjanleg í uppeldinu. Dr. Phil segir að það sé allt í lagi að vera góður við börnin sín.

Kveðja, Jón Gunnar

Unknown said...

oh, bið að heilsa gellunum :) Hlakka til að hitta ykkur allar næst þegar ég er á staðnum :)