Monday, September 29, 2008

Meiri bakstur.

Ég bakaði finnskt bláberjapæ í gær og bauð gráðugum foreldrum í kaffi. Kakan spændist upp (fyrir utan eina sneið sem enginn þorði að klára....... nema ég þegar allir voru farnir) svo hún hlýtur að hafa fallið í kramið hjá öllum.

Uppskriftin er mikið hernaðarleyndarmál...... en þeir sem geta lagt fram væna summu geta hugsanlega fengið hana senda á e-mail.

Annars var helgin tíðindalaus. Óðinn var á veiðum frá föstudegi fram á laugardag og við Dögun því einar í kotinu. Amma gulrót og Númi nutu því góðs af því og fengu að hafa okkur í mat á föstudagskvöldið því afi gamli var á Djúpavogi að djamma.

Kíktum til Árna og Erlu á laugardagskvöld, þeirri litlu til mikillar gleði enda var mikið stuð á þeim frændsystkinum Óðni Skúla og Dögun og þau komin í búninga undir lokin og farin að dansa við Queen o.fl.... Við sofnuðum svo seint að íþróttaskólinn var um það bil að byrja þegar við opnuðum augun á sunnudagsmorgni og var því ákveðið að skrópa í þann tíma. Dögun var afar sár þegar hún fattaði það, en henni var LOFAÐ að við myndum fara næst.

Nú er svo bara óttalegur mánudagur í loftinu, rigning og þungbúið. Sillemú sparkar óendanelga mikið þessa dagana (og næturnar) og má þakka fyrir að ég takist ekki á loft á köflum. Þetta er ekki ég, en svona er ástandið samt!

Wednesday, September 24, 2008

Miss MALM

Eftir viðureign mína við nýjasta húsgagn heimilisins hef ég ákveðið að Óðinn fái að setja saman öll húsgögn á heimilinu fram að fæðingu. Eftir 3 tíma vinnu með skrúfjárni og hamri, ásamt því að elda ofan í barnið, baða það og svæfa, þurfti laaaanga heita sturtu og verkjatöflur til að ná mér niður. Ég vaknaði svo í morgun með bjúg sem ég er klárlega ekki tilbúin að sætta mig við næstu 8-9 vikurnar!
Prinsessan á heimilinu var samt mjög spennt yfir þessu öllu og fannst við foreldrarnir ættum að kaupa nýja kommóðu handa henni líka, en að sjálfsögðu bleika...... og með Hello Kitty. Ikea framleiðir að vísu bleikar MALM kommóður, en ætli þær fáist eins og þessi???:


Friday, September 19, 2008

Stjörnuspá dagsins 19. sept 2008

Tvíburar: "Þú óskar þess að þú gætir komið á skipulagi og að það myndi endast að eilífu. Því miður tekur líf þitt stöðugum breytingum og þú þarft að betrumbæta þig."

Ansans - ég sem var að vona að eftir endurskipulagningu og þrif á heimilinu myndi það allt saman endast að eilífu.

Sporðdreki: "Þú þráir athygli. Stígðu á svið lífsins og haltu sýningu. Þú hressir heldur betur upp á liðið sem var farið að taka hlutina alltof alvarlega."

Svo á meðan ég þarf að endurskipuleggja og beturumbæta mig fær Óðinn að fríka út og skemmta öðrum - er þetta nú hægt???

Thursday, September 18, 2008

Dögun fer í bað....

Eins og Dögun fannst nú gaman í baði þegar hún var yngri er orðið nær ómögulegt að koma henni í sturtuna á kvöldin. Eftir mikinn eltingarleik um húsið tekst það þó yfirleitt. En stundum þarf að beitabrögðum og þá er oft dregin fram IKEA balinn góði og stóra 3 ára stelpan fer í ungbarnabað og unir sér vel.
Hins vegar er það líka þannig að þegar hún er loksins komin í bað eða sturtu ætlum við foreldrarnir aldrei að ná henni upp úr. Hún getur setið og leikið sér í sínum eigin heimi tímunum saman undir bununni og er hundfúl þegar á að veiða hana upp úr.

Merkileg þessi börn!

Íþróttaskóli, málning, IKEA og prjónaskapur

Á sunnudagsmorguninn byrjaði Dögun í langþráðum íþróttaskóla. Þetta átti sannarlega vel við hana og hún telur dagana þar til hún má mæta næst. Meira að segja laugardagurinn (nammidagur) fellur í skuggan af hinum mikla íþrótta-sunnudegi.
Eftir tímann fórum við og keyptum málningu í Húsasmiðjunni til að mála hjá okkur holið/borðstofuna. Dögun fór alsæl í pössun til ömmu og afa og langömmu og langafa á meðan foreldrarnir máluðu. Það var eiginlega ekki hægt annað það sem hún var heldur hjálpsöm við málninguna, var jafnvel farin að krefjast þess að borðstofan yrði máluð bleik. Þetta málningarævintýri endaði svo þannig að það þurfti að hefla, sparsla og pússa skemmdan vegg, mála 2 umferðir á allt og pensla 3x. Svo þegar allt var orðið hvítt og fínt sást hversu hurðarkarmarnir voru mislitir og illa blettaðir í gegnum árin með mismunandi málningu. Það var því tekið á það ráð að mála alla hurðarkarma sem snúa inn í borðstofuna með fínu panillakki (3 umferðir á hverja) + borðstofugluggann, baðherbergisgluggann (sem var farinn að flagna), baðherbergishurðarkarminn og karminn í forstofunni. Við erum því eiginlega enn að þó nú sjái loksins fyrir endann á ævintýrinu.
Í gærkvöldi gátum við svo loksins farið að raða upp hillum og skápum á sinn stað, og auðvitað þurfti ég að breyta til og fá Óðinn til að klöngrast með bókahilluna á milli veggja (ekki gat ég gert neitt með bumbuna út í loftið, enda búin á því eftir bogur við málninguna síðustu daga). Svo þurfti að raða bókunum skilmerkilega í hilluna. Ég sjálf hefði raðað þeim eftir stærð, lögun og litum...... en sei, sei nei, höfundar þurftu að vera saman, erlendar skáldsögur sér, ljóðabækur sér, íslenskar skáldsögur sér, uppskriftabækur sér (ég studdi það reyndar), goðafræði og íslendingasögur í eini hillu.....o.s.fr..... Bókauppröðun tók því lungann úr kvöldinu og því var lítið annað gert. Þrif og frágangur er því mikið til eftir. Ég hengdi þó upp gardínurnar aftur til að nágrannarir í elliblokkinni á móti gætu farið að lifa eðlilegu lífi og hætt að þurfa horfa upp á okkur á brókinni í flennistórum glugganum.

Nú er svo komið að því að hringja í okkar ástkæru IKEA búð og panta kommóðu og annað smálegt áður er skrípið kemur í heiminn. Eins mikið og ég elska IKEA er ég ekki sátt við þessar hækkanir hjá þeim.

En að örðu.
Peysan mikla kláraðist á föstudaginn var og hamingjan ríkti í 2 tíma, eða allt þar til Sessa vinkona sendi mér myndskilaboð þar stóð: "Peysan er tilbúin!" ásamt mynd af einhverri þeirri fallegustu ungbarnapeysu sem ég hef séð. Stúlkan atarna var sem sagt að prjóna/hekla peysu á Sillemú og það líka þetta meistaraverk.

Peysan mín:



Peysan hennar Sessu:

Ég hef samt ákveðið að láta ekki deigan síga þrátt fyrir einfaldleika peysunnar minnar, einhversstaðar verður maður að byrja og Sessa hefur u.þ.b. 16 ára forskot í þessari keppni eða meira. Mamma man enn þegar við stöllur sátum við eldhúsborðið heima með handavinnuverkefnið sem þá var í gangi í handavinnu. Sessa var að sjálfsögðu löngu búin með sitt og farin að prjóna barnapeysu, ég sat hins vegar sveitt við hverja lykkju og vældi. Mig minnir að verkefnið hafi verið prjónaður bolti. Gott ef minn bolti skoppaði ekki bara vel, enda orðinn þæfður og þéttur eftir átökin. Ætli við höfum ekki verið svona um 9-10 ára þarna.

Friday, September 12, 2008

Allt að koma og helgin framundan.

Dögun laslingur er öll að koma til. Hún var hitalaus í gær og nokkuð hress fyrir utan væl og tilætlunarsemi sem hún fann að hún komst upp með á meðan hún var lasin, en gerði sér svo vonir um að geta notað áfram eftir það...... en sei, sei nei! Nú verður sko sagt STOPP! Hér eftir verður skorið á alla lúxus þjónustu og undanþágur frá hinum venjulegu reglum heimilisins.
  • Enginn matur uppi í rúmi
  • Engin hlaup foreldrana fram og aftur heilu næturnar til að sinna óskum prinsessunnar
  • Engin tjaldútilega í stofunni
  • Enginn ís 3x á dag
  • Og síðan en ekki síst: STRAFF Á DÝRIN Í HÁLSASKÓGI sem eru búin að ganga 4x á dag í 5 daga í tölvunni minni! Fínt leikrit....en sannarlega ekki í þessu magni!
Á meðan Óðinn skrapp út í sveit í gærkvöldi að gera að fuglunum sem þeir bræður höfðu veitt, elduðum við Dögun okkur ódauðlega hamborgara. En okkur leiddist eftir það svo við ákváðum að gera aðra tilraun með ostakökuna góðu og hafa í henni bláber að þessu sinni. Hún varð ekki eins góð og hindberjakakan en þrælfín samt. Dögun fór svo í pössun í morgun til Ollu (þar sem leikskólinn er lokaður) iðandi í skinninu af spenningi og færði henni Bláberja-ostaköku með morgunkaffinu. Eitt það besta sem Dögun gerir, fyrir utan að hitta Systu sína, er að fara í dekurheimsóknir til Ollu, Kjartans og Kastrós. Enda ætlaði gærdagurinn aldrei að líða hjá þeirri stuttu þar sem hún vissi að morgundagurinn fæli í sér heimsókn í græna húsið.Hinn helminginn af kökunni stefnum við svo á að færa Eddu prjónakonu eftir hádegið þar sem verður lögð lokahönd á peysuna miklu. En það á eftir að prjóna stykkin saman og sauma svo hliðar og ermar. Þetta er sem sagt allt að koma.

Ines ætlar svo að kíkja í pössun fram yfir kvöldmat þar sem Kati ætlar að læra á afródans og að þessu sinni er ég betur fallin til að passa fyrir hana en að fara með henni að dansa með bumbuna út í loftið.....

Í kvöld er svo stelpu matarboð hjá Erlu perlunni minni, hlakka óneytanlega til að hitta bekkjarsysturnar sem gerist æ sjaldnar þessi síðustu ár. En er alltaf jafn gaman og alltaf líður manni eins og við hittumst á hverjum degi. Ómetanlegt að eiga góða vini!

Góða helgi!

Monday, September 8, 2008

Laslingur

Stundum getur komið sér vel að vera heima með lasið barn, þó auðvitað sé ekki gott fyrir barnið að líða illa þá er um að gera að gera það besta úr því.
Eftir að hafa unnið fram að hádegi fór ég heim úr vinnu og ákvað að nýta hindberin í ísskápnum sem við tíndum í Hallormsstaðaskógi í gær, ásamt sólberjum, hrútaberjum og bláberjum í hreint yndislegu veðri með mömmu og pabba... verst að myndavélin gleymdist heima. Ég tók mig sem sagt til og skellti í eina ostaköku með ferskum hindberjum. Ég hef aldrei gert ostaköku áður og fann á netinu einhverja grunnuppskrift og bætti svo við hana því sem mig lysti. Inga bankamær og Kristín sláturhúsgella kíktu svo í kaffibolla og köku á milli vinnutarna áðan.

Botninn:
  • 1 og 1/2 hafrakexpakki (frá Frón)
  • 170 g smjörklíki brætt, en ekki látið sjóða
Fylling:
  • 350 g rjómaostur
  • tæpur 1/2 l af rjóma (þeyttur)
  • 1 lítil dós af hindberjaskyri
  • 3 dl flórsykur
  • dass af vanilludropum
  • 1-2 dl af ferskum hindberjum
Myljið kexið í botninn og blandið svo smjörlíkinu út í, setjið í botninn á fallegu móti eða skál.
Þeytið rjómann í sér skál.
Blandið svo vel saman rjómaosti, skyri, vanilludropum og flórsykri þar til blandan er laus við kekki. Því næst er rjómanum blandað varlega saman við og loks hindberjunum (geymið þó nokkur til að skreyta með á eftir). Blöndunni er svo smurt vel ofan á kexbotninn og látið í kæli í a.m.k.2 klst.

OG VUOLA......... tilbúin til átu!

Það er eitthvað svo mikill uppskerutími í loftinu þessa dagana. Óðinn fer á gæsaveiðar, við tínum ber og búum til hlaup og sultur, ég prjóna, bumban stækkar, Dögun þroskast, meira að segja baselikumplantan í glugganum er upp á sitt besta. Svo er veðrið ekki af verri endanum eins og er.

Sunday, September 7, 2008

Lobba.

Á föstudaginn fékk Dögun sérdeilis góða gjöf. Dísa Hörpumamma kom færandi hendi með drauma lopapeysuna. Dögun er alsæl með gripinn og finnst hún voðalega fullorðin þegar hún er komin í peysuna. Hún var orðinn hálf abbó yfir peysunni sem mamman rembist við að prjóna á Sillemú, og var því eitt sólskinsbros þegar ég sagði henni að Dísa hefið prjónað þessa peysu sérstaklega handa henni. Það kom smá hik og svo sagði sú stutta: "Hún Dísa er svo góð!"

Takk fyrir peysuna Dísa!

Mamma, pabbi og Númi komu svo í mat í gær á meðan Óðinn stakk af á gæsaveiðar með bræðrum sínum. Á meðan var tilraunaeldamennskan í fyrirhúmi og ég held að hún hafi tekist ágætlega til, alla vega kvartaði enginn.
  • Fetaosta, Höfðingja og basilikumfyllt kjúkklingabringa vafin í bacon með salti og pipar
  • kartöflusalat með avocado, döðlum, furuhnetum, ólífum, limesafa, sýrópi, basilikum, maldonsalti og rósmarín
  • Rucolasalat með vínberjum, rifsbejum og sólberjum úr garðinum
  • Hvítlauks-ólífuolíudressing með karrý, sinnepi, salti og sítrónusafa
Að vísu vantaði rauðvínið með, en það fannst ein flaska af Bluch í ísskápnum sem fékk að fljóta ofan í þá sem höfðu aldur til og voru ekki bumbufylltir með barni. Hver segir svo að yfirkokkurinn á heimilinu þurfi alltaf að vera á staðnum til að elda? ;o)


Thursday, September 4, 2008

Móðir náttúra.

Eftir bleyju-notkun Dögunar og öllum þeim peningum sem fóru í hana og ruslapokum fullum af bleyjum og ólykt, ákvað ég að nú skyldi verða breyting á! Með þetta kríli ætla ég að prufa að nota taubleyjur. En nú var úr vöndu að velja...... eftir margar kvöldstundir á netinu yfir mörgum típum og gerðum af taublejum pantaði ég 3 stk í júlí til að fá svona nasaþef af því sem biði mín. Mér leist vel á þessar bleyjur þó þær séu ekki beint gefnins en var í vafa með hvort ég ætti að týma að splæsa í bleyjur sem koma í stöðluðum stærðum eða bleyjur sem stækka með barninu og endast því alla bleyju-gönguna, en eru kannski ekki eins góðar fyrir nýfædd kríli og minnsta gerðin.
Síðari kosturinn er að sjálfsögðu mun ódýrari þar sem ég get notað sömu 15 bleyjurnar allan tímann, í staðinn fyrir að þurfa að endurnýja bleyjurnar 3x (S, M, L) þegar barnið stækkar og kaupa því alls um 45 stk.
Þegar ég fór að kíkja á verðmuninn á Íslandi og í USA brá mér heldur en ekki í brún. Með því að kaupa bleyjurnar erlendis frá og fá að senda þær á frænda Óðins í New York sparaði ég samtals 24.500 kr. eða um helming miðað við að kaupa þetta af sölumönnum hér. Þrátt fyrir að vilja styrkja þessar góðu konur sem standa í innflutningi á taubleyjum og tengdum vörum gat ég ekki annað en keypt þetta erlendis frá.

Ég var s.s. að fjárfesta í 15 stk. af taubleyjum á Sillemú svo nú verður ekki aftur snúið!

Umhugsunarefni um þetta mál:

  • Ættu taubleyjur að vera skatta og tollfrjáls varningur ?- hvað ætli Ríkið spari við urðun sorps ef allir foreldrar notuðu taubleyjur á börnin sín? Sérstaklega hér á landi þar sem rafmagnskostnaður er frekar ódýr og því ekki eins dýrt að setja í þvottavélar hérlendis og annarsstaðar.
  • Hvað ætli kostnaður við urðun sé á einni bleyju? Fyrsta framleidda pappableyjan er ekki einu sinni orðin að mold í dag því það tekur hverja bleyju um 500 ár að eyðast í umhverfinu.
  • Af hverju eru foreldrar ekki upplýstir betur um taubleyjunotkun t.d. af sínum sveitafélögum og jafnvel styrktir um nokkrar bleyjur til að minnka urðun á svæðinu? Hvert fóru "Grænu sveitafélögin"?
  • Mér reiknaðist til að við værum að spara í kringum 200 þús. kr með því að nota taubleyjur í 3 ár í staðinn fyrir pappírsbleyjur. Pakkaverð á pappírsbleyjum hefur meira að segja hækkað töluvert síðan Dögun hætti með bleyju. Þó svo að lágmarks start-kostnaður á taubleyjum (þessum nýju tegundum) sé a.m.k. 30-40 þús. Það er örugglega hægt að komast af með minni upphafs kostnað ef notaðar eru gömlu gas/ælu/taubleujurnar með plasti yfir.
  • Hefur einhver efnagreint pappírsbleyjurnar? Hvaða efni erum við að láta liggja upp við viðkvæma húð barnanna okkar 24 tíma á dag vætta í hlandi?
  • Sem betur fer eru taubleyjur að komast í tísku, alla vega hér á Íslandi og þykir nú flottast að vera með barnið í sem náttúrulegustum taubleyjum, og vegna úrvals af gerðum, litum og munstrum er voða gaman að versla svona bleyjur.

Hmmmm...... nú er eins gott að ég endist í taubleyjuþvottinum þegar alvaran tekur loks við! Eins gott að Óðinn sé tilbúinn að sparka í rassinn á mér þegar ég spyr sjálfa mig hvað ég hafi verið að pæla með þessum kaupum. En vonandi á þetta eftir að komast fljótt inn í rútínuna. Þetta er spurning um 1 auka þvottavél daglega eða anna hvern dag. Svo verður kannski mikið sport fyrir 3 ára heimasætuna að brjóta saman litríkar taubleyjur fyrir foreldra sína.... hver veit?

Á von á þríburum 59 ára gömul

Svo er ég að kvarta yfir meðgöngunni og er bara 25 ára með eitt barn í bumbu- hvernig ætli þessi muni hafa það næstu mánuði?

Tuesday, September 2, 2008

Bílalán.

Ó hvað þetta er kunnuglegt!