Wednesday, January 30, 2008

Áramótaheitið

Þessi yndislega litla snót heitir Faith Lamwaka og býr í flóttamannabúðum í Úganda ásamt foreldrum sínum, 5 ára systur og 3 ára fóstur-bróður. Sjálf er hún rétt 2 og 1/2 árs gömul en komin í skóla/leikskóla.
Við fjölskyldan á Lagarásnum tókum að okkur að vera styrktar-fjölskyldan hennar hjá ABC barnahjálpinni í dag. Fyrir smá upphæð á mánuði er hægt að veita þessari litlu stúlku eina máltíð á dag, læknishjálp og skólavist. Sem sagt umbreyta lífi hennar fyrir smá fórnir. Svo má senda henni pakka með leikföngum, fatnaði, skólavörum o.fl. ef vill.

ABC barnahjálpin á Íslandi var í dag að fá sendar umsóknir frá 500 úgönskum börnum á öllum aldri sem þurfa á styrktarforeldrum að halda. Einnig er fullt af börnum frá Kenýa, Indlandi, Pakistan, Filipseyjum og Kambódíu sem búa annað hvort á barnaheimilum eða við afar slæmar aðstæður með fjölskyldum sínum og sjá ekki fram á sældarlíf í framtíðinni nema með utanaðkomandi aðstoð.
Meira um þetta má finna á síðunni hjá ABC og hér má sjá starf ABC í Rackoko ásamt myndum af aðstæðum þaðan, en þarna býr hún Faith okkar ásamt fjölskyldu sinni við vondar aðstæður. Þau búa í litlum moldarkofa og segir í skýrslu hennar að allt að 10 manns geti þurft að búa saman í hverjum kofa. Sjúkdómar herja á fólkið vegna lítils drykkjarvatns og matarskorts en fólkið er mótstöðulítið gagnvart sjúkdómum vegna næringarskorts. Malaría er mjög útbreydd og HIV/AIDS greinist í meira mæli vegna mikillar misnotkunar á unglingum og konum.
Á kortinu hér fyrir ofan má sjá lítið kort af Afríku (þar sem afstaða Úganda sést) og stærra kort af Úganda. Græni punkturinn sýnir hvar Rackoko flóttamannabúðirnar eru svona u.þ.b.

Mér líður eins og ég hafi fengið nýtt barn í fjölskylduna þegar ég fékk grunn-umsókn þessarar litlu stúlku í hendurnar. Þetta áramótaheit var ekki hægt að svíkja!

Monday, January 21, 2008

Einkabarn?

Í leikskólanum hennar Dögunar er verið að kenna börnunum að vera sjálfbjarga s.b.r. textann sem ég tók af heimasíðu Skógarlands:

"Af starfinu er það að frétta að við erum í sjálfshjálpar átaki, börnin eru farinn að skammta sér sjálf og reyna að klæða sig í og úr. Við erum að efla borðsiðina og reyna að sitja við borðin þangað til að allir eru búnir. Þakka fyrir okkur og biðja kurteisislega um hjálp eða annað."

Eitthvað segir mér hins vegar að dóttir mín sé að misskilja hlutina:

En kannski sýnir það vott um gáfur og sjálfsbjargar-viðleitni að láta aðra redda hlutunum þegar maður nennir ekki að standa í þeim sjálfur.

Thursday, January 17, 2008

Góð umræða

Ég er ánægð með umræðuna um Fjórðungssjúkrahús Austurlands á Norðfirði. Ekki veitir af breytingum hvort sem það verður á kynningu sjúkrahússins, betri samgöngu-möguleikum eða þá að tilfærslu á sjúkrahúsinu sjálfu (sem er hæpið).
En á kortinu hér til hliðar sést hin fáránlega staðsetning Fjórðungssjúkrahússins (og n.b. að þessi rauði vegur milli Egilsstaða og Neskaupsstaðar er ekki fær, heldur verður að fara fyrst gegnum Reyðarfjörð, Eskifjörð og Oddsskarðsgöng áður en á Norðfjörð er komið)





Alla vega er þetta þörf umræða fyrir samfélagið á austurlandi.

Umræða á Rúv 15. jan 2008

Blogg forsetja bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð

Bréf frá starfsmönnum FSN


Sjálf er ég búin að skrifa svo mikið um þetta á e-mail milli vinkvennanna að ég nenni ekki að tjá mig frekar um þetta hér.

Tuesday, January 15, 2008

Hugljómun

Mig dreymdi nafn á tölvuna mína í nótt, ég þurfti að melta það í dag en held að ég láti slag standa.
Hún heitir hér með:
1) Henrietta passaði bara svo vel við hana.
2) Guggenheim því hún er það flott að hún ætti heima á Guggenheim safninu í New York og einnig vísar það til Gugga bróður sem upphaflega setti mig inn í heim Mac (Gugga heiminn) og var iðinn um jólin við að kenna litlu systur á tölvuna.
3) Gorm því hún kom jú í hendur mínar á svipuðum mínútum og Gormur (Úlfur Stefán) kom í heiminn þann 28. nóv.'07. Von fyrir framan því það er svo tignarlegt.

Eitthvað segir mér að við Henrietta eigum eftir að bralla margt saman og hafa það gott!

Monday, January 14, 2008

Þreyta í gangi

Æ eitthvað svo lítið að segja þessa dagana. Ég fékk skammir frá Eygló frænku um daginn að ég væri ekki búin að setja inn myndir á heimasíðu einkadótturinnar síðan í nóvember. Hmmmm....ég sem taldi það myndi redda málunum að eignast nýja tölvu, þá myndi þetta hreinlega gerast að sjálfu sér, en NEI. Það virkar víst ekki þannig.
En afsökunin er:
Nær allar myndirnar eru enn á vinnutölvunni hans Óðins og það er svo mikið batterí að taka hana heim þegar mér dettur það í hug. (og hún hefur ekki verið tekin heim síðan gullmolinn minn kom inn á heimilið.... enda Mac miklu betri og miklu fallegri)
Hin afsökunin er að forritið sem boðið er uppá á Barnalandi styður ekki Mac, svo þessi einfalda aðgerð að setja inn myndir er orðin rosalega tímafrek og erfið. En sýnið biðlund, þetta mun koma allt með kalda vatninu.....

Annars er lítið að frétta, lífið silast áfram í skammdeginu og frostinu. Ég er að fara aða huga að skólaumsóknum hvað á hverju, þ.e. að útbúa nýja möppu fyrir næstu umsóknir. Það er bara hægara sagt en gert að koma sér af stað í svona verkefni á þessum árstíma. Eftir fullan vinnudag tekur Dögun við, innkaup, snúningar og kvöldmatur. Svo er að baða skvísuna, bursta tennur, lesa bók og koma henni í háttinn. Á meðan er hitt okkar að taka til eftir matinn, vaska upp og hugsanlega setja í þvotavél. Þegar augnlokin á dótturinni detta loks í hvíldarstöðu er klukkan nær undantekningarlaust að verða 9:30-10:00 og orkan sem eftir er fer í að horfa með öðru auganu á 10 fréttirnar, rétt til að ná því hver var sprengdur upp hvar í dag og hvort FL group sér á uppleið eða niðurleið. Það að fara svo að verða skapandi og hugmyndarík eftir þetta vex mér agarlega í augum. Ég skil ekki hvernig fólk með fleira en eitt barn fer að, but I just blame it on the darkness!

Við Óðinn fórum í leikhús á laugardagskvöldið. Hafnarfjarðarleikhúsið kom með leikrit David Harrower "Svartur fugl" sem sett var upp í Sláturhúsinu okkar góða. Sérdeilis fín sýning og sló mann pínu utan undir. Leikararnir, Pálmi Gestsson og Sólveig Guðmundsdóttir voru að mestu leiti bara tvö á miðju gólfinu, auk pínulítils auka hlutverks sem 12 ára stelpa lék rétt í lok sýninarinnar. Leikritið fjallar um Ray sem átti í sambandi við Unu þegar hún var tólf ára gömul. Þau hittast nú fimmtán árum síðar og uppgjör fer fram. Sterk sýning og áhrifamikil. Maður skiptist á að fyllast viðbjóði, tárast, finna til, hlægja að vissum setningum, sýna aðstæðunum skilning, dæma hart og æla.
Mér fannst leikararnir skila þessi mjög vel þó byrjunin hafi verði nokkuð stirð þá skildi maður það í lokin, kannski átti hún einmitt að vera stirð til að byrja með. Mæli alla vega með sýningunni fyrir þá sem hafa tök á að sjá hana.

Eftir sýninguna kíktum við út með góðum vinum það sem prinsessa Dögun var í gistinu hjá ömmu og afa.
Læt í lokin fylgja nokkrar myndir af leikskólanum hjá Dögun:

Málarinn mikli að verki


Snemma byrjar það maður. Góðir vinir á leikskólannum.


Hér fer ekki á milli mála hver er mamman.

Tuesday, January 8, 2008

Farinn "heim".


Ef maður á nú ekki eftir að sakna Úlfsins þá veit ég ekki hvað. Þessi elska flaug aftur til Köben aðfaranótt mánudags með foreldrunum. Ég er strax farin að sakna þess að geta ekki knúsað þennan fríðleiks-pilt og nusað af honum svona rétt til að fá fiðring í stokkana. Eins gott að Princess Consuela standi sig í stykkinu við að hlaða inn myndum á heimasíðuna hjá drengnum, annars mun þetta verða erfiður aðskilnaður fyrir frænkuna......og fleiri grunar mig ;o)
Dögun upplifir sig sem MJÖG stóra frænku og það er óspart notað á móti líka, því eins og allir vita nota stórar frænkur ekki bleyjur, bara litlir frændar. Stórar frænkur sofa líka alla nóttina í sínu rúmi, eru duglegar að bursta tennurnar, klæða sig, labba sjálfar, borða matinn sinn o.s.fr...
Já, það er mikið ábyrgðar hlutverk að vera 2 og 1/2 árs stóra-frænka.

Wednesday, January 2, 2008

Hversdagsleikinn tekinn við aftur.

Ég er ekki frá því að þrátt fyrir króníska þreytu eftir jólahaldið hafi bara verið notalegt að koma í vinnuna aftur í morgun. Tölvupósturinn hefur hrannast upp yfir hátíðarnar og ég er enn að reyna að komast í gegnum bunkann.

Framundan er "Spilakvöldið mikla" sem var orðin árleg venja hjá okkur Gyðu, Lindu, Gugga, Einari, Evu og Elsu Guðnýju. Eftir því sem árin liðu bættust svo makar og yngri systkini með í hópinn að ógleymdri ástkærri Erlu Dóru. Á spilakvöldum er malti, appelsíni og smákökum troðið í sig í óhófi á milli þess sem spilin taka hvert við af öðru. Bæði í fyrra og árið þar á undan unnum við Eva með mikilli forystu í Partý og Co..........spurning hvort við höldum titlinum þriðja árið í röð eða hvort Patrý-spilið detti út fyri nýja "Leir-spilið". Ég get alla vega lofað ykkur að ég skít-tapa alltaf í Trivial Pursuit..........nema gömlu ljósbláu útgáfunni síðan 87 eða eitthvað. Þar var ég orðin ansi góð í spurningunum enda svörin yfirleitt Juran Juran, Sylverster Stalone eða Ásgeir Sigurvinsson. En þetta kemur allt í ljós í kvöld.