Monday, December 3, 2007

Mánudagur strax aftur???

Tíminn líður svo hratt núna að það er fáránlegt. Enn ein helgin búin og kominn mánudagur. Reyndar vorum við Dögun heima í dag þar sem hún var enn slöpp eftir hitakast helgarinnar (hún er farin að nota hverja helgi í hita og lasleika foreldrunum til mikillar gleði...)
Á fimmtudaginn gerðum við Gyða frænka ódauðlega jólakransa með tilheyrandi smákökusmakki og jólatónlist.

Það var farið á jólahlaðborð með Bæjarskrifstofunni á föstudaginn, það var fínt og allir borðuðu á sig gat. Minns fór í klippingu, litun og greiðslu í tilefni dagsins (sem var reyndar óvart því að ég pantaði tímann fyrir löngu og vildi svo heppilega til að það passaði við jólahlaðborðið, en greiðslan fór eitthvað úr skorðum í vetrarveðrinu á leiðinni heim af klippistofunni...úps...)
Svo á laugardaginn kom Ines í heimsókn og við löbbuðum með stelpurnar að sjá stóra jólatréð við Kaupfélagið. En þar voru einnig jólasveinar, nammi og kókómjólk í boði. Í stað þess að hanga þar of lengi stungum við okkur inn á kaffihús og slökuðum þar á með kaffi og kleinur.
Um kvöldið spiluðum við á jólahlaðborði á HH, okkur tókst betur upp síðast en þar sem það var troðfullt núna urðum við að vera frammi í andyri að spila og heyrðum lítið í sjálfum okkur. Held þó að flestir gestanna hafi verið ánægðir með þetta.

Eygló frænka beilaði á austurferðinni, en ég skal þó viðurkenna að hún gat lítið að því gert þar sem það var ekki flogið neitt á föstudaginn svo ferðinni var frestað fram í Janúar. Eins gott að það standist góða!
Hugurinn hefur í ófá skipti reikað til Köben þessa helgina. Litli frændi dafnar vel og foreldrarnir allir að koma til. Það er von á þeim heim í eigin íbúð í dag og það verður spennandi að fá að sjá þennan Gorm í beinni í gegnum web-cam og vonandi kemur hann til landsins um jólin. Ég er svo klökk yfir þessum nýja
frænda að ég á bágt með mig þegar ég skoða myndir af honum og foreldrunum. Enda er drengurinn slíkur gullmoli
að annað eins hefur vart sést!..... eða varla síðan Dögun fæddist ;o) Þau eru þó ekki mjög lík frændsystkinin þó þau hafi fæðst svo til jafn stór.

Dögun var mynduð fyrir jólakort í gær......þótt lasin væri.....en það stendur samt til að taka fleiri prufur svo þetta standist nú örugglega alla fyrri jólakortastaðla. Hún stóð sig samt eins og hin
besta fyrisæta (enda vön myndavélum barnið). Ég fann samt allt í einu hvað tíminn hefur liðið hratt þegar ég fór að horfa á myndirnar eftir á. Hún er orðin svo stór og mannaleg, með sítt hár og endalaust margar skoðanir á hlutunum. Talar stundum út í eitt og stjórnar öllu og öllum sem hún getur.

Í dag hef ég notað tímann og farið eins og stormsveipur um húsið til að fægja helstu fingraklessur af mublunum og skrapað upp skítinn af gólfinu. Það er samt enn stóóóóóór hrúga af þvotti sem bíður þess að einhver straui hann, brjóti hann saman og gangi frá inn í skáp. Hver skyldi þessi "einhver" vera? Vona að hann gefi sig fljótt fram svo ég geti farið að setja í fleiri þvottavélar.

1 comment:

Anonymous said...

Elskan mín - ef væri ekki allavega klukkutími á milli okkar í flugi skyldi ég koma strax til þín að brjóta saman þvottinn!!