Monday, May 5, 2008

Góð ferð að baki!

Það var svo gott að komast aðeins suður. Eftir hörmungar-veður á miðvikudeginum með 30 cm. snjó yfir öllu stungum við af í sólina í Reykjavík.

Tengdó náðu í okkur á völlinn og skutluðust með okkur upp á Grettisgötu þar sem heil íbúð beið okkar. Draslinu var hent inn og haldið beint upp á Skólavörðustíg að kikka á Bleggeddu og nýja bróðurinn (og foreldrana líka svo sem). Þar krúsuðum við fram á kvöld (með 20 mínútna shopping ferð inn á milli) og borðuðum dýrindis lax í góðri sósu með sítrónugrasi ásamt góðu víni.


Svo skunduðum við niður á Grettisgötu eftir smá stopp í kjörbúðinni á horninu til að eiga mjólk í kaffið og brauð í morgunmat (þess má geta að þetta litla sem ég keypti kostaði mig jafn mikið og hefði ég boðið Óðni og Dögun út að borða á Vegamótum morguninn eftir..... merkilegt hvað maður lætur plata sig, svo kvartar maður yfir Samkaupum á Egilsstöðum!).


Daginn eftir kúrðum við til 09:00 (Dögun vaknaði síðust af öllum, alla morgna) og dúlluðumst heima fram undir hádegi en fórum þá í göngutúr niður Laugaveginn og enduðum einmitt á Vegamótum í hádegisverði. Mæli með matnum þar, fínn matur og góðu verði. Við sátum úti í sólinni allan tímann og nutum þess að hafa komist burt úr snjóhríðinni fyrir austan. Þetta var allt voðalega yndislegt og gott, eða allt þar til 3 risa geitunar fóru að trylla lýðinn á staðnum. Einn flaug ítrekað í andlitið á mér en flutti sig svo á næsta borð, þar tókst nokkrum ungum mömmum, með mikilli hetjudáð, að fanga kvikindið í glas. Móðureðlið hjá þeim greinilega í lagi og þær vörðu börn sín með miklum sóma. Ég hins vegar var að því komin að hlaupa í burtu og skilja Dögun eina eftir hjá flugu-kvikindinu. En þegar Dögun gargaði upp yfir sig af skelfingu við flugu nr. 2 sem var komin á staðinn áttaði ég mig á að ég ætti kannski að kippa henni með mér líka. Sem við gerðum, enda búin að borða. Þegar við biðum eftir Óðni (sem fór að borga) í hæfilegri fjarlægð frá borðunum, sáum við hvar þriðja flugan var farin að pirra fólk.


Dögun að borða Vegamótapizzu í sólinni.


Eftir þetta fór Óðinn í e-ð bíla mission fyrir Dagrúnu en við Dögun fórum til Ísoldar frænku til að líta á bræðurna Bjart besta skinn og Sponna spíturass. Bjartur var lítið breyttur frá því síðast, alltaf jafn mikill Emil í Kattholti með sín bláu augu og skemmtilegu lífsgleði. Sponni spíturass stóðst líka fyllilega væntingar og meira en það. Mikið sem hann var (og er) mjúkur og fallegur strákur.

Sponni spíturass sem fær bráðum nafn.

Svo fór Bjartastur með ömmu sinni í kröfugöngu á meðan Sponni, Ísold, Dögun og ég fórum og náðum í Eygló út á Nes því svo var ferðinni heitið á Álftanesið að heimsækja forseta voran.....eða ekki. Við slepptum því í þetta skiptið og litum í staðinn í heimsókn til the JJ's og tvíburasystranna Arneyjar og Védísar. Ekki urðum við heldur fyrir vonbrigðum með þær systur, algjörar sponsur. Hanna Bára og Helgi komu líka um leið í heimsókn og það var mikið dáðst að krílum, nýja húsinu og veitingunum!


Arney, Sponni og Védís, vantaði bara Úlfinn góða
Dögun komin í hópinn
Svo var brunað í bæinn og kallinn sóttur áður en haldið var út á Seltjarnarnes í nýja FLOTTA húsið þeirra Svölu og Árna. Þar var svo dýrindis matur, indverskur kjúkklingaréttur með naanbrauðum og nóg af drykkjarföngum með. Dögun og Bjartur fengu svo auðvitað súkkulaðiís hjá ömmu súkkó en hinir þessa dýrindis jarðarberja tertu og kaffi. Við fórum södd og sæl heim eftir mikinn heimsóknardag.
Föstudagur rann upp með góðu veðri. Tengdó komu og pössuðu Dögun kl. 08:30 meðan við foreldrarnir sinntum nokkrum erindum í sitthvoru lagi. Svo kom Sessa alla leið frá Kjalarnesi að kíkja á okkur með litla Friðjón Inga sjarmatröll. Við borðuðum bakaríis bakkelsi heima og fórum svo í göngutúr á laugarveginum með krílið og Dögun. Takk fyrir að nenna að keyra til okkar Sessa!!!
Óðinn og Tengdó komu heim um hádegi og við fórum í eina Kringluferð, þar sem verslað var töluvert. Þar á meðal voðalega fínan Kartell lampa (Bourgie Table Lamp) sem er ammlisgjöf frá Ma og Pa. Þau verða kysst og knúsuð fyrir gripinn þegar hann skilar sér í póstinum á morgun eða hinn.
Dögun var til fyrirmyndar og eins og ljós í Kringlunni og bað ekki um neitt og naut þess bara að sitja í kerrunni og horfa á allt.

Úr Kringlu fórum við að kíkja á nýja húsið hennar Helgu Jónu, þar fann Dögun margt skemmtilegt dót síðan Þorvaldur Davíð var lítill og undi vel við að skoða það. Auk þess tók hún nokkur hopp á risa trampólíni í garðinum - þvílík gleði!

Svo keyrði Helga okkur til Tengdó í dýrindis lambarlæri. Við fórum frekar snemma heim miðað við að vera í Rvk. á föstudagskvöldi....... en svona er þetta. Við horfðum bara á DVD á Grettisgötunni í staðinn.
Þarna fréttum við líka að Olla og Ingólfur væru búin að eignast stóran og fínan strák á Norðfirði og óskum við þeim, Degi, Dagrúnu, Arnari og Atla innilega til hamingju með drenginn/litla bróður!

Laugardagurinn var rólegur. Áttum eins von á að hitta Snærúnu frænku og Co. en þau þurftu að komast í sumarbústaðinn sinn og því hittum við þau bara í næstu ferð.
Við fórum út í göngutúr undir hádegi að reyna að finna bleika hlaupaskó á Dögun sem átti þá ósk síðan áður en lagt var í ferðina suður. En engar íþróttabúðir voru opnar svo við löbbuðum niður að Caffé Paris og hittum þar kunningja og fengum okkur kaffi og hádegismat. Þaðan gerðum við svo aftur ítarlega leit að góðum skóm á dömuna en án árangurs. Það var ekki fyrr en við komum í Hnokka og Hnátur á Skólavörðustígnum að við fundum fallega bleika leðurskó (ekki beint hlaupaskó...hmmmm....) en Dögun var alsæl og kallar skóna "hlaupaskó" þrátt fyrir að þeir séu nú meira spariskór en hlaupaskór. Móðirin var alla vega hamingjusöm að Solla stirða náði ekki yfirráðum í skóvali að þessu sinni...... en það verður ekki langt að bíða hugsa ég.

Dögun og Bergþóra Edda að leika sér, Dögun í bleiku hlaupaskónum!




Árni Daníel og Stína

Fjölskyldan á Skólavörðustígnum



Kl. 14:00 fórum við í nefningu hjá Lillemann Grétarssyni sem hlaut nafnið: Árni Daníel. Það passar afskaplega vel við hann, enda hið fallegasta nafn. Hjá Stínu og Grétari borðuðum við nefningar-veitingar og fengum svo bílinn lánaðan út á flugvöll og skelltum okkur austur eftir góða daga í Borginni góðu.

Ferðin í hnotskurn var sem sagt: Matur, börn, matur, börn, matur, verslun, matur, börn og matur! Ekki slæmt!

2 comments:

Anonymous said...

Ég játa að ég kíki oft en kvitta ekki... bæti úr því. Mig dauðlangar í fjölskylduferð til Rvk eftir þessa lesningu. Gaman að heyra þig mæla með Vegamótum - myndarlega rekið af mágkonu minni og svila. Mæli líka með staðnum. Kveðja í kotið, Inga J.

Anonymous said...

Kvitt fyrir mig.

KV.
Stína