Wednesday, November 4, 2009

1 árs í dag!

Um þetta leiti (eða um kl. 10:00) þann 4. nóv 2008 var ég vakin á Lansanum af fæðingarlækni og nemum með þessari setningu: "Við erum að hugsa um að koma barninu í heiminn í dag þar sem þú ert komin yfir 37 vikurnar og mælingar líta ekkert sérstaklega vel út..........". Það fyrsta sem ég hugsaði var: "Frábært, amma fær þá krílið í afmælisgjöf!" Reyndar var ég nú komin svona nett af stað um nóttina en ekki víst að ég hefði náð að koma Sólinni út á "réttum" degi ef ekki hefði verið ýtt á. Ég held samt að það geti ekki verið um tilviljun að ræða, enda hefði ég ekki getað fundið betri manneskju til að fá Sól í afmælisgjöf.

Það skrítna í þessu öllu saman er nefnilega að:
  • Dögun fæddist tveimur dögum eftir afmælið mitt.
  • Sól fæddist tveimur dögum eftir afmælið hans Óðins.
  • Úlfur Stefán (bróðursonur) fæddist á afmælinu hans Braga afa ári áður.
  • Sól fæddist á afmælinu hennar Unnu ömmu.
En svo er önnur saga sem ég hef ekki sagt frá fyrr en nú:
Tveim nóttum áður en Sól kom í heiminn vaknaði ég upp með martröð. Fullt af eldri konum (eins og seiðkonur eða hópur af eldri ljósmæðrum) stóðu í hálfhring yfir rúminu mínu og hvísluðu. Ég man bara að hvíslið magnaðist og varð eins og suð, ég fékk gæsahúð og mikinn hjartslátt og hrökk upp í svitakasti. Ég taldi mig aðeins hafa verið að dreyma og lokaði augunum aftur en þá birtust þær enn á ný, suðið var óbærilegt og þetta var eins og í lélegri bíó-hrollvekju. Eftir þetta þorði ég ekki að loka augunum og vakti það sem eftir lifði nóttu. Ekki veit ég hverjir þetta voru eða hvort mig var að dreyma eða ég í annarlegu ástandi vegna veikinda, en ég er samt næstum viss um að þessar konur vildu að hún amma mín elskuleg fengi Sólina í afmælisgjöf.

Núna ári seinna eiga sem sagt þessar tvær perlur afmæli, Unna amma og Sól. Frá fyrstu kynnum hafa þær verið góðar vinkonur og kemur ákaflega vel saman.


Sól glæný


Amma og Sól hittast í fyrsta sinn.


Sól næstum 1 árs

Amma og Sól

- Góðar saman -

Innilega til hamingju með daginn báðar tvær!

2 comments:

Elsa said...

Já þú hefðir svo sannarlega ekki getað fundið betri manneskja til að fá Sól í afmælisgjöf. Innilega til hamingju með þær báðar tvær :)

Anonymous said...

Til hamingju með Sólina og Unnu ömmu, flottar saman :)
Kveðjur Joðin & co