Thursday, August 28, 2008

Ofur húsmóðirin

Ég hef grun um að hreiðurgerðin sé farin að fara með mig strax og þó bara komin um 28 vikur á leið.
Undarleg þrifþörf hefur gripið um sig og mig langar alltaf að vera að laga til, breyta og lagfæra allt í kringum mig, kaupa vellyktandi gólfsápur í BESTA, safna einföldum og hollum uppskriftum, búa til berjahlaup, en vegna ástand míns hefur reyndar ekki allt komist í verk enn, blessunarlega Óðins vegna. En löngunin til að hafa allt ógurlega fallegt og flott er að fara með mig, sérstaklega þar sem ég get ekki gert þetta allt sjáf, kannski það sé líka haustlyktin í loftinu ásamt nýja IKEA bæklingnum sem gera þetta að verkum. Mann langar bara til að "hygge sig" við kertaljós uppi í sófa og prjóna..... JÁ, prjóna! Ég er nefnilega að reyna að ala upp í mér prjónadelluna með hjálp góðra vinkvenna. Mín tók sig til og keypti garn í eina ungbarnapeysu um daginn og er strax búin með bakstykkið og byrjuð á vinstra framstykki. Ekki það að þetta þyki merkilegt afrek á mælikvarða prjónafólks, en ég er stolt og sama hversu misheppnuð og ljót peysan verður, krakkinn (Sillemú) skal sko fá að nota hana ef mér tekst að ljúka henni.

Með hjálp góðra aðstandenda tókst mér líka að fjárfesta í nýju rúmi án vitundar eiginmannsins. Þegar hann kom svo heim úr vinnunni í gær beið eftir okkur full borðstofa að rúmpörtum sem þurfti að setja saman. Við fórum létt með það og létum fara vel um okkur í nýja Tempur Spring Air rúminu okkar í nótt. Þó það sé alltaf draumur að skríða upp í rúm á kvöldin hefur það sjaldan verið jafn gott og girnilegt og í gærkvöldi, vitandi það að við erum fyrstu mannerskjurnar sem sofa í rúminu (vonandi), sökkva í tempurdýnuna og loka augunum. En ég verð reyndar að viðurkenna að ég lagðist ekki strax til svefns...... það var ekki fyrr en eftir nokkrar prjónaumferðir sem ljósið var slökkt og ég lagðist niður. En ég get þá líka vottað það að prjónaskapur og Tempur fara ákaflega vel saman! En mér á hinn bóginn líður orðið eins og gamalli baðstofu kerlingu með prjónana við rúmstokkinn.



Sennilega er ég vel til þess fundin að falla inn í undirheima prjónsins!!!


4 comments:

Anonymous said...

Þú færð sko ótakmarkaða aðdáun mína fyrir prjónaskapinn. Mín eina falleinkunn í grunnskóla var í prjóni í 3. bekk.

Og svo hlakka ég bara rosa til að sjá Sillemú! (ég skoða bara Ikea bæklinginn þangað til...)

Eygló frænks

Anonymous said...

Hehehe, gamla kelling!

Stína

Anonymous said...

Ég hlakka mjög til að sjá peysuna fullkráraða, það verður kannski til þess að ég klára hinn bleika og hvíta vettlinginn á móti þeim sem prjónaður var í júní 2005 er og átti að vera handa Dögunni pínkuponsulítilli en nú er Dögun orðin stór stúlka og Sillimúa væntanleg og vantar vettlinga þegar hún brýst í heiminn í nóvemberkuldunum.

Kveðja,
mamma

E.s. Vonandi sofið þið vel í nýja rúminu.

Anonymous said...

Þér bara líður vel og nýtur þess að eiga heimili og hugsa um það - það er gott. Veit ekki alveg með prjónið, hef aldrei fundið fyrir þeirri þörf og skil hana illa, ekki að ástæðulausu að dætur mínar áttu í námslegu baksi þar! En þú ættir endilega að halda áfram að blogga, þú getur skrifað svo ágætan texta. Sofið vel í nýja rúminu, sjálf er ég í svefnvanda vegna umferðarhávaða í minni flottu íbúð og sting iðulega af inn í Glinglóar herbergi um nætur. Það snýr frá aðalgötu og ég get haft opinn gluggann. Eins gott að hún kemur ekki heim í bráðina!!!