Thursday, August 28, 2008

Ofur húsmóðirin

Ég hef grun um að hreiðurgerðin sé farin að fara með mig strax og þó bara komin um 28 vikur á leið.
Undarleg þrifþörf hefur gripið um sig og mig langar alltaf að vera að laga til, breyta og lagfæra allt í kringum mig, kaupa vellyktandi gólfsápur í BESTA, safna einföldum og hollum uppskriftum, búa til berjahlaup, en vegna ástand míns hefur reyndar ekki allt komist í verk enn, blessunarlega Óðins vegna. En löngunin til að hafa allt ógurlega fallegt og flott er að fara með mig, sérstaklega þar sem ég get ekki gert þetta allt sjáf, kannski það sé líka haustlyktin í loftinu ásamt nýja IKEA bæklingnum sem gera þetta að verkum. Mann langar bara til að "hygge sig" við kertaljós uppi í sófa og prjóna..... JÁ, prjóna! Ég er nefnilega að reyna að ala upp í mér prjónadelluna með hjálp góðra vinkvenna. Mín tók sig til og keypti garn í eina ungbarnapeysu um daginn og er strax búin með bakstykkið og byrjuð á vinstra framstykki. Ekki það að þetta þyki merkilegt afrek á mælikvarða prjónafólks, en ég er stolt og sama hversu misheppnuð og ljót peysan verður, krakkinn (Sillemú) skal sko fá að nota hana ef mér tekst að ljúka henni.

Með hjálp góðra aðstandenda tókst mér líka að fjárfesta í nýju rúmi án vitundar eiginmannsins. Þegar hann kom svo heim úr vinnunni í gær beið eftir okkur full borðstofa að rúmpörtum sem þurfti að setja saman. Við fórum létt með það og létum fara vel um okkur í nýja Tempur Spring Air rúminu okkar í nótt. Þó það sé alltaf draumur að skríða upp í rúm á kvöldin hefur það sjaldan verið jafn gott og girnilegt og í gærkvöldi, vitandi það að við erum fyrstu mannerskjurnar sem sofa í rúminu (vonandi), sökkva í tempurdýnuna og loka augunum. En ég verð reyndar að viðurkenna að ég lagðist ekki strax til svefns...... það var ekki fyrr en eftir nokkrar prjónaumferðir sem ljósið var slökkt og ég lagðist niður. En ég get þá líka vottað það að prjónaskapur og Tempur fara ákaflega vel saman! En mér á hinn bóginn líður orðið eins og gamalli baðstofu kerlingu með prjónana við rúmstokkinn.



Sennilega er ég vel til þess fundin að falla inn í undirheima prjónsins!!!


Friday, August 15, 2008

Föstudagur

Ormsteiti að byrja og í kvöld er stefnt á Hverfahátíð og alvöru Karnival með svakalega flottum búningum. Þessu má enginn missa af!!!


Dögun er hin spenntasta og búið að lofa henni að fá ljósa armbönd og hálsfestar til að bera þegar skyggja fer.
Það eina sem veldur mér áhyggjum að litur okkar hverfis er GULUR og eiga menn að klæðast þeim lit í tilefni af því á grillinu. En ég fór yfir fataskápa heimilisins í hádeginu og fann bara eina gula flík:
Skærgulan Malarvinnslubol sem ég fékk á blakmóti fyrir löngu. Nú eru góð ráð dýr, við erum jú 3 í heimili og allir verða að skarta gulu. Ætli ég endi ekki á að klippa niður bolinn fína og búa okkur til hárbönd eða trefla, það er bara spurning hvort Blædís og Doddi fyrirgefi mér skemmdirnar á bolnum fína. En vonandi erfa þau það ekki við mig þar sem þau eru búin að selja fyrirtækið. Menn verða nú að fórna sér fyrir hverfið og blessunarlega eru þau á Hörgsási 6 líka í gula liðinu með okkur Lagarásbúum.

ÁRFAM VIÐ!

Monday, August 11, 2008

Vuola!

Skelli inn einni mynd af ofur-bumbunni eftir nokkrar áskoranir/kvartanir ;o)

Hér eru komnar um 25 vikur

Til gamans set ég inn eina mynd af mér komnar 35 vikur með Dögun/ fyrsta barn:

Er furða að maður haldi að krílin séu 3 þarna inni???



Komin aftur til vinnu.

Jæja, einhvern vegin er það þannig að þegar maður hefur frá mestu að segja nennir maður ekki að blogga um það eða hefur hreinlega ekki tíma í það.
Sumarfríið leið allt of hratt sem og dvöl Úlfsins og Co. á landinu, en þau flugu aftur til Köben í gær.

Fríið einkenndist af leti og meiri leti. Þó var hitt og þetta smálegt framkvæmt samhliða letinni. Hæst stóð þó uppúr þriggja nátta útilega á Borgarfirði eystri um Bræðsluhelgina og Verslunarmannahelgar-game á Eiðum, auk almennra hittinga með skyldfólki úr báðum ættum.

Annars nenni ég ekki að tíunda fríið meira þar sem ég sakna þess að vera ekki í lengra fríi, en það er nú ekki langt í að ég þurfi að bregða mér aftur frá vinnu til að sinna annars konar störfum. Alla vega er leigandinn framan á mér í stöðugri stækkun og ég veit ekki hvar þetta endar með þessu áframhaldi. Mig er farið að gruna að það séu a.m.k. 3 leigendur þarna inni miðað við læti og fyrirferð. Ef leigutíminn er til 24. nóvember eins og áætlað er, held ég að Óðinn verði farinn að teyma mig um í bandi eins og risastóra gasblöðru áður en langt um líður. Ég verð svo útblásin að ég á ekki eftir að geta hreyft mig úr stað af sjálfsdáðum innan örfárra vikna.
Kannski þetta verði þrjár Dögunir í viðbót???