Sunday, March 30, 2008

Mér er ekki skemmt!

Í gær fór ég niður á Gistiheimilið á Egilsstöðum til að sinna opnunar-teiti 700IS. Þar lagði ég bílnum samviskusamlega í stæði beint fyrir framan Gistihúsið, fyrir aftan fallegan vínrauðan jeppling og taldi ég að stæðið væri öruggt.

Þarna var kl. 21:11. Þegar ég kom hins vegar út af gistiheimilinu um 02:37 var komið mikið kóf og leiðinda veður og þegar ég ætlaði að hlaupa til og opna bílstjóra hurðina á bílnum var hún föst. Ég var hálf hissa og reyndi á afláts að opna, en það var ekki fyrr en mér var litið á hurðina fyrir aftan framhjólið að ég sá hvað var að, það var búið að klessa á bílinn og sá hinn sami stunginn af!!!!
Engin ummerki sáust þar sem veðrið var svo vont og löngu fennt og skafið í öll bílför.
Við fórum aftur inn og hringdum á lögregluna, en að sjálfsögðu var hún sofandi heima hjá sér á laugardagskvöldi og bara símsvarinn á. Við enduðum því á að keyra bílinn heim með Gulla sem vitni af staðsetningu bílsins og beyglunni.

Nú trúi ég ekki að það séu engin vitni af þessu þar sem mikið af fólki var á staðnum og allir bílar sem voru á ferðinni fullir af fólki því enginn labbaði í þessu veðri.

Nú óska ég s.s. eftir vitnum af árekstri fyrir utan Gistiheimilið á
Egilsstöðum á dökk-gráan Toyota Auris milli 21:11 og 02:37 laugardagskvöldið 29. mars 2008! Líklega er um lítinn bíl að ræða með svartan stuðara, þar sem beyglan er mjög neðarlega, sem hefur bakkað á eða runnið til við að snúa og klesst á bílinn minn. eða bíll með kerru. Bíllinn gæti verið ljós því hvítar rákir voru á lakkinu mínu og svart nudd eftir líklega stuðarann.
Lögreglan tók þetta loksins út 31. mars svo þetta er komið á skjöl hjá þeim ásamt nákvæmum myndum.

Friday, March 28, 2008

Það sem er efst á baugi í dag er að ég mun skila portafoglio-inu mínu í póst í dag ásamt umsókn í skóla. Mappan er búin að vera mikið hugarangur í meira en mánuð en ég er þó bara sátt með loka útkomuna. Nú er bara að bíða og sjá hvort að LHÍ er ekki á sama máli. Ég nenni samt ekki að stressa mig mikið yfir þessu, veit vel að ég á eftir að enda á þessari braut hvort sem það verður núna eða síðar. En mér finnst alla vega vera kominn tími á einhverjar breytingar, hverjar sem þær verða.

Í kvöld er svo stefnt á leikhúsferð á sýninguna "Lísa í Undralandi" sem Halldóra vinkona er að leikstýra hjá LME (Leikfélag menntaskólans á Egilsstöðum) og Jóhanna Kolbjörg uppáhalds barnapía fær að passa Dögun.

Þetta mun vera efst á dagskrá á morgun hjá mér, enda fæ ég að skipuleggja partýið á Gistiheimilinu! Hvet ykkur til að skoða heimasíðusíðu 700IS og sjá hvað er að gerast. Einnig kom út veglegur bæklingur með dagskrá hátíðarinnar öðrumegin og hinu megin er að finna nýtt tímarit L'Est sem er ógó flott (Guggi ég tók eintak frá til að senda þér til DK)
Eigið þið góða helgi gott fólk!

Thursday, March 27, 2008

Hver er að borða krónuna mína?

Þessi lækkun krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum er orðin skammarleg!

Þegar ég fjárfesti í elsku bílnum mínum ákvað ég að taka myntkörfulán í Jenum og Frönkum því það var mun hagstæðara og sveiflur á erlendum mörkuðum mun takmarkaðri en hér heima. Gott og vel, mjög skynsamlegt enda kostar ekki nema 12.000 kr að kippa þessu yfir í krónulán.
En nei, nei.... nú er 28.000 kr. greiðslan mín komin upp í 46.300 kr. og heildarlánið af bílnum búið að hækka um hálfa milljón á 2 mánuðum. Það kostar orðið 25.000 kr að breyta um mynnt sem borgar sig ekki. Það borgar sig heldur ekki að selja bílinn því þá sæti ég uppi með þá upphæð sem lánið hefur hækkað um þó bíllinn væri farinn. Eftir símtal við ágæta konu hjá Lýsingu sagði hún mér að skársti möguleikinn væri að bíða eftir að krónan hækkaði í verði og borga mína himinháu reikninga með von um betri tíð og blóm í haga.

Svo nú verð ég bara að setja allt mitt traust á ráðamenn þjóðarinnar (sem b.t.w. settu okkur væntanlega í þessa stöðu í upphafi) að rétta af kútinn svo ég eigi salt í grautinn og þá er mér ekki bros í huga.
22.300 kr. hækkun á 2 mánuðum. Það gera 267.600 kr. aukalega á ári fyrir það eitt að búa á Íslandi um þessar mundir og klárlega eru launin mín EKKI að hækka í samræmi við þetta. ........ ég gæti bara átt annað barn í nær fullri leikskólavist fyrir það!

Wednesday, March 19, 2008

Álfarnir

Álfarnir munu sennilega alltaf fylgja okkur Íslendingum, hvort sem er í þjóðsögum eða raunveruleikanum. Sumir trúa, aðrir ekki. Sumir sjá, hinir ekki.

En eitt er víst að allir geta séð þessa álfa:
Dögun álfur
Úlfur álfur
(Guggi tók mynd)

Úlfur (ómótstæðilegi) og Guggi álfar
(Harpa tók mynd)

Annars er lítið að frétta núna en nóg að gera fram undan:
  • Páskafrí sem betur fer að verða að veruleika núna kl 16:00 í dag.
  • Ferming á morgun hjá henni Jóhönnu Kolbjörgu.
  • Flutningar hjá Árna og Erlu.
  • Ég verð að klára portafoglioið mitt um páskana
  • Ættingjar og vinir á staðnum yfir páskana

Dögun bíður spennt eftir að fá að borða páksaeggið sitt, hún fékk eitt egg nr. 2 frá Nóa Síríus en þar sem það var enginn strumpur á því fannst henni það heldur lélegt. Mamman fjárfesti því í öðru eggi nr. 5 frá Nóa með strumpi (sem Dögun fær að eiga...þ.e. strumpinn) en foreldrarnir fá hins vegar að njóta súkkulaðsins. Góð lausn! Ég er samt hund fúl yfir að dótapáskaegg fást ekki nema í einhverjum yfir stærðum, auðvitað langar Dögun í dóta-egg en hún hefur ekkert að gera við meira súkkulaðimagn en það sem finnst í eggi nr 2.

Merkilegt þetta ameríska þjóðfélag okkar!







Monday, March 17, 2008

Sunnudagur og sól

Veðrið var til fyrirmyndar í gær og við nutum þess í botn að prufa "nýju" skíðin hennar Dögunar. Það var arkað út í garð í fullum klæðum og skíðin fest á dömuna. Dýrðin entist þó stutt, en var skemmtileg á meðan á henni stóð. Eftir að vera búin að dragast eftir jafnsléttunni í korter sagðist Dögun bara vilja fara að leika sér, sem hún og gerði. Skíðaklossunum var skipt út fyrir kuldaskó og alls konar dót drifið út í garð þar sem heimasætan dundaði sér lengi, lengi eða allt þar til kaffiþyrstir göngugarpar stöldruðu við í góðu yfirlæti í sólinni.

Dögun tilbúin í slaginn!

Komin á skíðin fínu.

Snjó"húsið".

Kaffiþyrstir göngugarpar á leið úr Bónus.


Thursday, March 13, 2008

Skemmtanahald takmarkað um bænadaga.

Æ, voðalega erum við föst í viðjum vanans. Ég er sjálf mjög hlynt aðskilnaði Ríkis og Kirkju og mér finnst að í samfélagi sem okkar, er stefnir í að verða fjölþjóðasamfélag, eigi ekki að vera hægt að bjóða fólki með önnur trúarbrögð upp á að bönn við skemmtanahaldi vegna eins tiltekins trúarflokks.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er viðkvæmt mál, en það mundi ekki brjóta á neinum þó Kirkja og Ríki yrðu aðskilin, því menn geta áfram aðhyllst sína trú án athugasemda, hver sem hún er, og farið eftir reglum hennar og virt bænadagana séu þeir til staðar. "Ríkisbatteríið" á hins vegar að sjálfsögðu að vera hlutlaust þegar kemur að trúmálum og rekið frekar eins og fyrirtæki sem ber hagsmuni heildarinnar fyrir brjósti.

Við tókum þá ákvörðun að skíra ekki Dögun svo hún yrði ekki skráð sjálkrafa í einhvern ákveðinn trúarflokk. Okkur fannst hún eiga að hafa frelsið að velja þegar hún hefur náð aldri og þroska til að skilja út á hvað trúmál ganga. Óðinn er ekki skráður í Þjóðkirkjuna en ég er hins vegar enn skráð þar. Ég vil að dóttir mín alist upp við manngæsku, virðingu, jafnrétti, skoðana- og tjáningarfrelsi og mitt helsta mottó er: "aldrei gera neinum það sem þú vilt ekki að aðrir geri við þig".

Sem vísar okkur aftur í byrjun færslunnar: Menn yrðu ekki glaðir ef aðrir trúarflokkar tækju sig til og settu boð og bönn um skemmtanahald eða annað í heilu landi á dögum sem væru fyrir Þjóðkirkjunni venjuleg helgi eða vika.


En þetta er bara mín skoðun.


Tuesday, March 11, 2008

Tilþrif í íþróttatíma.

Segið svo að það borgi sig ekki að horfa á Latabæ. Dögun er alveg að ná snerpunni og töktunum hjá Íþróttaálfinum á þessari mynd! Hvað ætli hún hafi náð mörum hringjum áður en hún lenti???

Thursday, March 6, 2008

Ammli!

Hún mammzan mín er árinu eldri í dag og í tilefni af því buðum við hér á Lagarásnum "gamla settinu" og Núma (sem kom seint því hann var í afmæli) í kvöldmat. Mér sýndist maturinn fara vel í liðið og veigarnar enn betur, enda þegar styttist óðum í hálfrar aldar afmæli verða menn að vera búnir að hita sig vel upp.
Dögun gaf ömmu sinni pakka með bros á vör og sagði henni samviskusamlega hvað væri í pakkanum áður en amman náði að opna. Oh, jæja það var vel meint hjá henni. Hér er mynd af ömmunni og Dögun feitabollu saman á góðri stundu.


Elsku mamma til hamingju með daginn!


Að búa til barn....

Jónas og frú gátu ekki eignast barn svo þau ákváðu að fá sæðisgjafa til að koma að starta fjölskyldu. Daginn sem "sæðisgjafinn" átti að koma í heimsókn, kyssti Jónas konuna sína bless og sagði "jæja, elskan, ég er þá farinn í vinnuna, maðurinn kemur fljótlega."
Hálf tíma síðar, er fyrir tilviljun, barnaljósmyndar, staddur í hverfinu hennar og hringir á bjöllunni í þeirri vona að fá verkefni. Góðan daginn frú, sagði hann, ég er komin til að....... "Ó, þú þarft ekkert að útskýra sagði Jóna feimnislega, ég átti von á þér. Í alvöru, sagði ljósmyndarinn. Nú það er ánægjuleg, vissirðu að börn eru mín sérgrein?? Ja, það er nú akkúrat það sem við hjónin vorum að vonast eftir. Gjörðu svo vel og komdu inn á fáðu þér sæti. Eftir smástund sagði hún, vandræðalega, "hvar byrjum við?" "Láttu mig bara sjá um allt. Ég byrja yfirleitt í baðkarinu, svo á sófanum og loks nokkrar á rúminu. Stundum er meira að segja stofugólfið heppilegast, það er hægt að teygja svo vel úr sér það " "Baðkarið, stofugólfið, hugsaði Jóna, Engin undra að þetta gekk ekkert hjá okkur hjónum - "Já, frú mín góð, ég get ekki lofað fullkomnum árangri í hvert skipti, en ef við notum mismunandi stellingar og ég skýt frá mismunandi sjónarhornum, þá þori ég að lofa að þú verður ánægð með útkomuna." Vá, það er aldeilis mikið sagði Jóna með andköfum. "Frú mín góð, í mínu starfi verður maður að gefa sér góðan tíma í hlutina. Ég mundi gjarnan vilja skjótast í þetta en ég er viss um að þú yrðir ekki ánægð með útkomuna. "Ætli maður kannist ekki við svoleiðis, tautað Jóna lágt".Ljósmyndarinn dró upp nokkur sýnishorn af barnamyndum og benti Jónu á árangurinn. "Mér tókst sérstaklega vel til með þessa tvíbura sagði ljósmyndarinn, eins og mamma þeirra var þó erfið". "Var hún erfið, spurði Jóna ?" "Ég er nú hræddur um það. Ég varð að fara með hana í lystigarðinn til að ná að ljúka verkinu vel. Fólksafnaðist að og fylgdist með. "Fylgdist með? sagði Jóna og gapti af undrun" - og þetta tók í allt 3 tíma. Móðirin hrópandi og kallandi allan tímann - ég gat varla einbeitt mér, svo þegar það byrjaði að dimma varð ég að gefa í, en það var ekki fyrr en íkornarnir voru farnir að narta í græjurnar þá varð ég að hætta og gangafrá. Jóna hallaði sér fram og sagði "voru þeir í alvöru farnir að narta í .... græjurnar? Þetta er alveg satt frú mín góð. "Jæja ef þú ert tilbúin þá ætla ég að gera þrífótinn klárann "ÞRÍFÓTINN??? "Ó já, frú Jóna. ÉG verð að nota þrífót "to put my Canon on, It's much too big to be held in the hand very long."

ÞAÐ STEINLEIÐ YFIR FRÚ JÓNU.

Sunday, March 2, 2008

Mikið að gerast.

Á hlaupársdag voru tvíburakrúttin þeirra Jóhanns Inga og Jóhönnu skírðar.
Alparós - tvíburi A fékk nafnið: Védís
Blómarósin - tvíburi B fékk nafnið: Arney

Til hamingju með þessi fallegu nöfn!
(upphaflega myndin fengin lánuð af heimasíðu systranna)

Stína og Grétar eignuðust barn nr. 2 þann 1. mars. Lítinn yndislegan strák og heilsast öllum vel.

Til hamingju með það kæra fjölskylda!
(fyrsta mynd sem barst ættingjum á e-mail)

Svo á hún Anna Guðlaug litla frænka mína afmæli í dag þann 2. mars.
Innilega til hamingju með daginn frænku-skott!
(myndin tók ég í maí 2007)